Íris Sverrisdóttir, körfuknattleikskona og Aron Rafn Eðvarðsson, handknattleiksmaður voru valin íþróttakona og íþróttamaður Hauka árið 2011 og Aron Kristjánsson var valinn íþróttaþjálfari Hauka árið 2011, þetta var tilkynnt á hinu árlega viðurkenningarhófi sem haldið var fyrir stuttu.
Íris hefur spilað með öllum kvennalandsliðum Íslands í körfubolta á sínum ferli og er einn af máttarstólpum kvennaliðs Hauka, sem er nú í toppbaráttu í Iceland Expressdeildinni og varð Lengjubikarmeistari nú í haust, Íris er því svo sannarlega vel að þessari viðurkenningu komin.
Aron Rafn er einn allra efnilegasti handknattleiksmarkmaður landsins og sést það best á því að þrátt fyrir ungan aldur hefur hann leikið stórt hlutverk í karlaliði Hauka í handbolta sem nú situr í efsta sæti N1-deildarinnar og varð Deildarbikarmeistari milli jóla og nýárs. Þá var Aron Rafn valinn í undirbúningshóp Íslenska landsliðsins í handbolta sem nú undirbýr sig af krafti fyrir EM í Serbíu. Aron Rafn er frábær íþróttamaður sem á framtíðina fyrir sér.
Aron Kristjánsson þarf sennilega ekki að kynna en hann er án vafa einn sigursælasti þjálfari félagsins frá upphafi. Hann stýrði Haukum til Íslandsmeistaratitla í handbolta karla árin 2008 til 2010 og eftir eitt ár í Þýskalandi er hann nú komin heim og hefur þegar skilað liðinu í efsta sæti úrvalsdeildar og Deildarbikarmeistaratitli. Einfaldlega einstakur þjálfari sem er félaginu mjög mikilvægur.
Félagið óskar þessu sóma fólki til hamingju með viðurkenningar sínar og vonar jafnframt að árið 2012 verði þeim jafn gott og árið 2011 reyndist vera.