Haukar Deildarbikarmeistarar

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að milli jóla og nýárs tryggðu Haukar sér Deildarbikarmeistaratitilinn í meistaraflokki karla í handbolta með sigri á FH í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Vegna misskilnings birtist ekki frétt um leikinn hér á heimasíðunni en úr því verður nú snarlega bætt ásamt því að ritari lofar því jafnframt að framvegis munu fréttir um leiki Hauka í meistaraflokkum alltaf birtast hér á síðunni innan við sólarhring eftir þeim lýkur.

En til að gera langa og jafnframt skemmtilega sögu mjög stutta þá höfðu drengirnir okkar töluverða yfirburði gegn FH í úrslitaleik Deildarbikarsins og var forskotið lengst um 3-5 mörk. Örlítil spenna hljóp í leikinn undir lokin þegar FH náði að minnka muninn í þrjú mörk og fimm mínútur voru eftir en nær komust þeir ekki því okkar menn settu síðustu tvö mörk leiksins og höfðu öruggan og sanngjarnan sigur 25-20. Stefán Rafn Sigurmansson var markahæstur hjá Haukum með sjö mörk og næstur honum kom Þórður Rafn Guðmundsson með fimm mörk.  Aron Rafn Eðvarðsson stóð í markinu, stóð sig mjög vel og varði 19 skot. Myndina sem fréttinni fylgir tók Eva Björk Ægisdóttir.