Pétur: Leikurinn mun vinnast á hugarfari frekar en taktík

 

Pétur Guðmundsson stýrir Haukum í sínum fyrsta leik í IE-deildinni - karfan.isHaukar mæta liði Tindastóls á fimmtudaginn næstkomandi í Schenkerhöllinni og er ljóst að leikurinn er gríðarlega mikilvægur báðum liðum. Liðin eru jöfn að stigum í 10.-11. sæti deildarinnar og því um svo kallaðan fjögra stiga leik að ræða.

Bæði lið hafa orðið fyrir þjálfaraskiptum á leiktíðinni en Borce Illveski sagði starfi sínu lausu hjá Tindastóli og Bárður Eyþórsson tók við liðinu. Á svipuðum tíma hætti Pétur Ingvarsson með Haukaliðið og Pétur Rúðrik Guðmundsson tók við.

Heimasíðan setti sig í samband við hinn „nýja“ Pétur sem sagði að þetta væri einn mikilvægasti leikur liðsins á tímabilinu. 

„Þarna eru tvö lið sem að eru á sama stað í deildinni og ég er nokkuð viss um að bæði lið telja sig eiga að vera ofar í töflunni. Það eru auðvitað allir leikir mikilvægir en í ljósi stöðunnar þá gerir það þennan leik enn skemmtilegri fyrir vikið.“

Pétur, sem er annálaður baráttuhundur, hefur verið á fullu að undirbúa liðið síðan hann kom til liðs við Hauka og hefur eins og vera ber komið með sínar áherslur inn og er alveg klár á því að hugarfar og barátta frekar en taktík verði það sem skeri úr um sigurvegarann í þessari viðureign.

„Undirbúningur liðsins er í raun öðruvísi en áður þar sem að þjálfaraskipti hafa átt sér stað. Ég hef reynt að koma inn þeim hlutum sem að mér líður vel með að geta nýtt í leiknum en jafnframt passað að breyta ekki of miklu þannig að það hái leikmönnum og flæði leiksins.“

„Þessi leikur mun að mínu mati vinnast á hugarfari frekar en taktík og leikmenn eru búnir að einsetja sér það að sigra leikinn. Það er svo mitt að reyna að gera þá tilbúna hugarfarslega í þá baráttu sem er framundan í þessum leik,“ bætti Pétur við.

Það rann upp fyrir Pétri ljós þegar að hann skrifaði undir hversu mikið batterí Schenkerhöllin er og segist algjörlega hafa séð allt í nýju ljósi.

„Undanfarna daga hef ég reynt að koma mér inn í sál Haukanna og er að kynnast nýju starfsumhverfi, leikmönnunum og þjálfurum liðsins. Ég er að kynnast Schenkerhöllinni á nýjan hátt en hér áður fyrr gekk maður eingöngu inn um anddyrið, inn í búningsklefa og inn á völlinn. Núna er að renna upp fyrir mér hve aðstaðan hér er góð og hve gott staf er unnið hér í yngri flokkum ásamt meistaraflokkunum. Hér er góð umgjörð í kringum allt og mikill metnaður til að ná árangri.“

„Það virðist margt vera að gerast hjá okkur núna. Nýr þjálfari, nýtt nafn á heimavöllinn og stelpurnar komnar á skrið. Núna þurfum við að koma strákunum af stað þá verður lífið ljúft hér í Hafnarfirði,“ sagði Pétur að lokum.

Leikurinn er sem fyrr segir á fimmtudaginn á heimavelli Hauka, Schenkerhöllinni, og hefst kl. 19:15. Grillið verður sem fyrr dregið fram og hægt að gæða sér á borgurum frá 18:30.

Þá er bara að að fjölmenna á völlinn og styðja strákana til sigurs í einum af mikilvægustu leikjum vetrarins.