Haukar stóðu uppi sem sigurvegarar Ljósanæturmótsins sem haldið var í gær og á miðvikudaginn í íþróttahúsinu í Njarðvík.
Haukastelpur unnu báða leiki sína á miðvikudaginn gegn KR og Njarðvík og mættu því Snæfelli í úrslitaleik í gær.
Haukar unnu Snæfell 84-76 í baráttuleik um gullið. Leikurinn var hraður og mikil barátta var í fyrirrúmi. Það var ekki aðeins hiti á gólfinu í kvöld þar sem að báðir þjálfarar Snæfells uppskáru sína tæknivilluna hvor eftir að ekki var dæmt þegar brotið var á Öldu Leif Jónsdóttur í þriðja leikhlutanum. Snæfellsstelpur fengu smá orkuskot undir lok leiks en Haukarnir héldu haus og kláruðu leikinn.
Stigahæstar hjá Haukum voru Íris Sverrisdóttir og Jence Rhoads með 22 stig hvor og Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 19 stig.
Mynd: Sigurður Ólafsson