Haukar leika við Tindastól á föstudag á Ásvöllum og hefst leikurinn kl. 20:00.
Haukaliðinu hefur gengið vel í undanförnum tveimur leikjum þegar liðið vann góða sigra á ÍR og Fjölni. Fyrri leikurinn við Tindastól á Sauðárkróki vannst einnig sannfærandi eða 5-0. Það er samt ekkert gefið í fótboltanum eins og margoft hefur komið í ljós og óvænt úrslit hafa orðið.
Í spjalli við haukar.is í kvöld sagði Heimir Porca þjálfari um leikinn að nú væri nýr leikur og 3 stig í boði fyrir sigur. Allir leikmenn verði að leggja sig fram og vera einbeittir til að ná sigri. Leikmenn Tindastóls hafi sýnt í undanförnum leikjum að þeir hafa baráttuna í lagi.
Þá sagði Heimir að nýr leikmaður væri kominn til Hauka, Dagbjört Agnarsdóttir sem væri hörkudugleg stúlka og fyrrverandi leikmaður Hauka. Hann sagði mikilvægt að fá hana inn í hópinn þar sem Björg Magnea Ólafs færi út til náms í lok júlí en síðasti leikur hennar verði við Fram þann 27. júlí nk.
Haukar eru nú í öðru sæti B-riðiils 1. deildar með 15 stig eftir 7 leiki en Fjölnir er með sama stigafjölda eftir 8 leiki. Sjá nánar um stöðuna og næstu leiki hér, http://www.ksi.is/mot/motalisti/urslit-stada/?MotNumer=24186
Við látum nokkrar myndir fylgja hér með, þar á meðal myndir af öllum fimm mörkum Hauka í fyrri leiknum við Tindastól, og hvetjum um leið stuðningsmenn Hauka til að mæta á leikinn á föstudag og styðja stelpurnar okkar til sigurs.
Haukar bjóða áhorfendum frítt á leiki Haukastúlkna í 1. deildinni í ár.
Áfram Haukar!