Það verður ekki annað sagt en að afmælisveislan í gær hafi heppnast vel. Mikið af fólki heimsótti Ásvelli og tók þátt í fjölbreyttri dagskrá sem í boði var fyrir alla aldurshópa. Kvöldið endað svo á balli fyrir unglinga í veislusalnum á Ásvöllum.
Afmælisnefndin og allir þeir fjölmörgu sem lagt hafa hönd á plóginn eiga sannarlega hrós skilið fyrir frábært starf.
Viðburðadagatalið heldur áfram að tifa og stutt er í að Saga Hauka frá 1991 – 2011 komi út og einnig er stutt í að Fréttablað félagsins Haukur komi út í veglegri afmælisútgáfu. Því verður dreift á hvert heimili og fyrirtæki í Hafnarfirði. Þar verður atburðum ársins gerð góð skil, birt verða viðtöl við Hafnfirðinga á öllum aldri , farið verður yfir sögu félagsins, sagðar Haukafréttir og margt fleira.
Fjölskyldudagur verður á Ásvöllum í júní í tengslum við íþróttaskóla Hauka og afmælisgolfmót í ágúst þar sem keppt verður um rauða jakkann enn og aftur. Í október verður svo kvennakvöldið á sínum stað.