Fjölmennum í Ásgarð í kvöld

Haukar mæta liði Stjörnunnar í kvöld og er spennan um hvaða lið enda í úrslitakeppninni í ár orðin mikil og ljóst að okkar menn þurfa sigur til að tryggja sig inn. Haukar eru sem stendur í 8. sæti deildarinnar með 16 stig. Það er ljóst að Haukar eiga ekki séns á því að ná 6. sæti deildarinnar en þar situr ÍR með 20 stig og ef að það færi svo að Haukar jöfnuðu þá að stigum þá væri ÍR ávallt ofar enda með innbyrðis viðureignina á Hauka. 

Njarðvíkingar sitja í 7. sæti með 18 stig og ætli Haukar sér að hirða af þeim sætið verða þeir að treysta á að grænir tapi fyrir Tindastóli í loka umferðinni og að sama skapi að treysta á sjálfa sig og sigra þá leiki sem þeir eiga eftir þ.e. gegn Stjörnunni í kvöld og svo KFÍ á fimmtudaginn.

Tindastólsmenn leika gegn Keflavík í kvöld og Fjölnir tekur á móti Grindavík. Fari leikar svo að Keflavík sigri Tindastól og Grindavík leggi Fjölni þá er sæti Hauka í úrslitakeppninni tryggt gagnvart Tindastól því Stólarnir sitja í 9. sæti með 14 stig og þar eiga Haukar innbyrðis viðureignina. Fjölnir situr í því 10. einnig með 14. stig en þeir eiga hins vegar innbyrðis viðureignina gegn okkar mönnum og gætu hrifsað það af Haukum.

Fjölnir getur með sigri í kvöld sent Hauka í 9. sætið en verða þá að treysta á að Stjarnan vinni Hauka. Grafarvogspiltar eiga svo ÍR í loka umferðinni og hafa ÍR-ingar verið á mikilli siglingu eftir áramót.

Til að sæti Hauka sé 100% öruggt þurfa þeir því á sigri að halda í kvöld og treysta á að Suðunesjaliðin, Keflavík og Grindavík, vinni sína leiki í kvöld.

Leikur Hauka og Stjörnunnar verður spilaður í Ásgarði kl. 19:15 í kvöld og nú eru allir Haukamenn hvattir til að gera sér ferð yfir lækinn og öskra liðið inn í úrslitakeppnina.

Áfram Haukar, 
alltaf, allstaðar.