Þrjár Haukastúlkur voru valdar í landsliðshópa fyrir Norðurlandamótið sem haldið verður í Solna í Svíþjóð í júní. Dagbjört Samúelsdóttir og Margrét Rósa Halfdanardóttir voru valdar U18 landsliðið og Lovísa Björt Henningsdóttir í U16.
Dagbjört og Margrét Rósa eiga báðar að baki 10 landsleiki og hafa verið fasta menn í yngri landsliðum Íslands undanfarin ár. Lovísa Björt er nú að fara í annað sinn á Norðurlandamót en hún hefur spilað 5 landsleiki fyrir Ísland.
Margrét Rósa, Dagbjört og Lovísa hafa allar æft og spilað með meistaraflokki kvenna í vetur og hafa nú í lok leiktíðar verið að fá aukinn tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Þá hafa þær verið í baráttunni með unglingaflokki og stúlknaflokki sem eflaust munu spila til úrslita um íslandsmeistaratitla nú í vor.
Verkefni þessara stúlkna verða því næg í vor og óska Haukar þeim góðs gengis í þeim verkefnum sem framundan eru.