Í gærkvöldi fengu Haukar lið HK í heimsókn á Ásvelli. Liðin voru fyrir leikinn í 4. og 5. sæti bæði með 14 stig og því leikurinn mjög mikilvægur því fjögur efstu sætinn gefa rétt til að spila um Íslandsmeistaratitilinn í lok móts. Þetta var 13. umferð mótsins af 21.
Lið Hauka barðist allan leikinn hetjulega í vörninni en sóknin varð liðinu að falli. Strákarnir virðast eiga erfitt með að finna taktinn sókninni þrátt fyrir að ágæt tilþrif sjáist inn á milli. Stöðugleikinn er ekki fyrir hendi. Þjálfarinn og reynsluboltinn Halldór Ingólfsson tók fram skóna í þessum leik en hann mátti síns lítið gegn sterkri vörn gestana enda ekki í leikæfingu. Sóknarlega munaði Hauka mikið um að hafa Björgvin Hólmgeirsson í banni. Það fór svo að lokum að HK sigraði með einu marki, 22 – 23. Með tapinu duttu Haukar niður í 5. sætið en HK situr í því 4. með 16 stig, tveimur meira en Haukar.
Haukar í horni völdu mann leiksins og í þetta skiptið var það Tjörvi Þorgeirsson sem var valinn en aðeins eitt atkvæði skyldi á milli hans og Arons Rafns Eðvarðssonar markvarðar sem sýndi oft fína takta í leiknum. Tjörvi dróg aftur á móti vagninn lengstum í sókninni og gerði mörg falleg mörk en þau urðu sex alls. Fín mæting var á Ásvelli í gær og eiga áhorfendur hrós skilið fyrir góða stemmningu á pöllunum. Það er alveg magnað hvað leikirnir verða miklu skemmtilegri þegar fólk mætir og lætur í sér heyra.Næsti leikur Hauka í N1 deildinni er útileikur gegn Fram 17. febrúar næstkomandi og hefst hann kl. 19.30. Framliðið er sterkt í vetur og situr sem stendur í 2. sæti deildarinnar.
Haukamynd: Jón Páll Vignisson.