Í gær fór fram viðureign Hauka og KRí Iceland-Express deild kvk. Liðin voru fyrir leikinn jöfn að stigum og var því um mikilvægan leik að ræða.
Kr-ingar byrjuðu leikinn mun betur og fengu hvert hraðaupphlaupið á fætur öðru. Haukar skoruðu aðeins 6 stig í fyrsta leikhlutanum og staðan að honum loknum 20-6.
Haukastelpur komu sterkari inn í annan leikhlutann og skoruðu fyrstu 6 stigin. KR varð síðan fyrir áfalli þegar Margrét Kara Sturludóttir sneri sig á ökkla. Það kom hins vegar ekki að sök og voru KR-ingar með 12 stiga forskot í hálfleik.
Í þriðja leiklutanum skelltu stelpurnar sér í svæðisvörn og virkaði hún vel. Það gekk hins vegar erfiðlega að finna körfuna á móti og náðu þær aðeins að minnka muninn í 10 stig fyrir síðasta leikhlutann.
Með mikilli baráttu náðu stelpurnar að minnka muninn niður í 4 stig en nær komust þær ekki þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir. Lokatölur urðu 66-57 fyrir KR.
Enga tölfræði var að fá úr leiknum en stigahæst í liði Hauka var Katie Snoodgrass með 22 stig.