Fyrir leik Hauka og ÍR í gærkvöldi var foreldrum iðkenda hjá körfuknattleiksdeildinni boðið upp á kynningu á leikreglum auk þess sem að lið Hauka var kynnt og áherslur þess fyrir leikinn. Það var Ívar Ásgrímsson þjálfari og fyrrum leikmaður sem sá um kynninguna og var mætingin ágæt.
Ívar segir í samtali við síðuna að ástæða þess að deildin fór af stað með þessa kynningu sé í raun kall foreldra til að öðlast skilning á því sem er að gerast inn á velli.
„Í síðasta mánuði voru haldnir foreldrafundir hjá öllum yngri flokkum deildarinnar þar sem Samúel, formaður, og ég mættum og kynntum starfsemi deildarinnar. Á þessum fundum kom skýrt fram að sumir foreldrar skildu ekki alveg reglurnar og vildu fá fræðslu svo þau gætu tekið meiri þátt í leiknum og hvatt börnin í leikjum og á æfingum,“ sagði Ívar og segir að hann og Samúel hafi brugðist strax við.
„Við Samúel ræddum strax um það að setja á kynningu á reglum fyrir alla þá sem hafa áhuga og hafa hana þá á undan leik hjá meistaraflokkunum, þannig að foreldrar/áhugamenn gætu svo farið á leik eftir kynninguna og fengið þetta svo að segja beint í æð eftir kynninguna“.
Ívar segir að þeir hafi ekki ætlað að flækja málin um og of og í raun einungis að sýna fólki um hvað leikurinn snýst sem og að reyna að fá fleiri áhorfendur í pallana.
„Ákveðið var líka að hafa þetta nokkuð auðvelda kynningu á helstu reglum og líka um leikinn sjálfan og þar var skilgreint út á hvað leikurinn gengur. Þetta er líka gert til þess að fá fleiri á leikina hjá okkur og fá þannig fólk til að koma á leiki. Við stöndum fast á því að þegar fólk kynnist leiknum og reglum þá áttar fólk sig á hve frábær íþrótt þetta er“.
Við skutum að sjálfsögðu þeirri spurningu að Ívari hvernig kynningin hafði tekist og hann stóð ekki á svörum.
„Ég held að þetta hafi gengið nokkuð vel. Það mættu um 40 manns á þennan fund og flestir fóru á leikinn á eftir,þar sem allir sem mættu á fundinn fengu frítt á leikinn. Held að þetta sé bara nokkuð góð mæting en auðvitað má gera betur og reyna að fá enn fleiri næst,“ og bætti við: „Það komu nokkrir foreldrar til mín eftir fundinn og þökkuðu fyrir þetta framtak og mér heyrðist flestir bara vera mjög sáttir“.
En verður framhald af þessu í vetur?
„Við Samúel töluðum um það eftir fundinn að hafa annan svona fund fljótlega á nýju ári. Held að það væri gott að gera þetta jafnvel á fyrsta heimaleik mfl. karla eftir áramót, einnig væri hægt að gera þetta líka fyrir leik hjá mfl. Kvenna“.
„Við erum ekki bara að kynna fólki reglur í körfuknattleik, við förum líka yfir helstu atriði leiksins, útskýrum hvað maður á mann vörn er, hvað svæði er og hvernig lið er skipað. Einnig fórum við yfir leikinn sem fólkinu var boðið á, hvernig þeim hafði gengið fram að þessum leik, hverju mátti búast við og hvernig leikskipulag liðanna er. þannig að þetta var svona litt lítið af hverju og það var reynt að setja reglur og annað í samhengi við leikinn þannig að fólk næði að tengja þetta saman“.
Ívar segir að þetta hafi bara fyrir þá sem vilja læra reglurnar, heldur líka fyrir þá sem vilja fá að vita hvernig leikurinn sem verið er að fara að spila er settur upp og hvernig Pétur og liðið hafa undirbúið sig fyrir leikinn.
„Þarna getur fólk spurt um liðið sjálft. Flestir voru ósáttir með liðið eftir síðasta leik á móti Fjölni og vildu fá að vita hvað hefði verið gert til að snúa dæminu við. Þetta er þannig kjörið fyrir áhugamanninn/áhorfandann að fá fleiri fréttir. Þetta ætti auðvitað að vera fyrir hvern leik og spurning hvort við sjáum okkur fært að framkvæma það. Við verðum að sinna þeim sem kaupa ársmiða hjá okkur og þetta er ein leiðin“.
„Við vorum þarna að reyna að fá fólk til að koma meira á leiki og til þess að þau geti hvatt alla sem eru að spila áfram á réttan hátt. Við vorum ekki að reyna að búa til sem flesta dómara í pöllunum heldur verður þetta vonandi til að búa til fleiri áhangendur um okkar frábæru íþrótt,“ sagði Ívar Ásgrímsson að lokum.