Stórt tap í Hveragerði

Á sunnudaginn fór stelpurnar í meistaraflokki kvenna í blómabæinn Hveragerði til að etja kappi við heimastúlkur í Hamri. Haukastúlkur vilja þó eflasut gleyma þessum leik sem fyrst þar sem Hamar sigraði leikinn örugglega 89-58.

Heimastúlkur komu mun betur stemmdar í leikinn og byrjuðu á því að skora fyrstu 14 stig leiksins og voru leikmenn Hauka að gera mikið af mistökum sem að Hamar nýtti sér. Hvergerðingar juku muninn jafnt og þétt og staðan eftir fyrst leikhluta var 38-11 og augljóst að Haukar voru ekki að spila nógu góða vörn eins og sést á stigaskorinu. 

Haukar spiluðu mun betur í 2. leikhluta og þá sérstaklega í vörninni. Munurinn hélst þó alltaf sá sami og virtist allt ganga upp hjá Hamri á meðan ekkert gekk upp hjá Haukastelpunum. Staðan í hálfleik var 53-22 og var skotnýtingin hjá Hamarstúlkum ótrúleg þar sem að þær hittu t.d. úr 8/13 þriggja stiga skotum sínum í hálfleiknum.

Það sama var upp á teningnum í seinni hálfleik og gekk ekkert upp hjá stelpunum sama hvað þær reyndu. Hamarsstúlkur náðu mest 39 stiga forskoti rétt undir lok leiksins en Haukastelpur skoruðu 8 síðstu stigin og endaði leikurinn því 89-58. Jaleesa Butler og Slavica Dimovska, fyrrum leikmaður Hauka, voru að gera Haukum erfitt fyrir og skoruðu samtals 42 stig.

Stigahæst Hauka var Íris Sverrisdóttir 22 stig. Guðrún Ósk Ámundadóttir gerði 8 stig og Ragna Margrét Brynjarsdóttir 7 stig og tók 9 fráköst