Fyrsti heimaleikur vetrarins

Haukar spila sinn fyrsta heimaleik í Iceland Express-deildinni eftir þriggja ára fjarveru úr deild þeirra bestu í kvöld þegar lið Tindastóls mætir á Ásvelli. Þessum liðum var spáð tveimur neðstu sætunum í deildinni af þjálfurum og fyrirliðum liðanna í deildinni fyrir mótið og því mikilvægur leikur fyrir bæði lið. Haukar gerðu góða ferð í blómabæinn Hveragerði á föstudaginn þegar þeir lögðu lið Hamars af velli og á sama tíma töpuðu Tindastólsmenn fyrir KFÍ.

„Við munum leggja áherslu á varnarleikinn hjá okkur enda okkar takmark að vera með besta varnarlið deildarinnar“ sagði Pétur Ingvarsson þjálfari í samtali við síðuna og segir lið Hauka ætla að vinna fyrir hvorn annan inn á vellinum og hjálpast að í að leggja Stólana af velli.

Pétur var að vonum ánægður með sigur sinna manna á föstudaginn gegn Hamri en þetta var fyrsti leikur Péturs sem þjálfari Hauka í efstu deild. 

„Ég veit að það er ekki sjálfgefið að sigra Hamar í Hveragerði og ég var að gera það í fyrsta skipti sem gestur þar. Þetta er erfiður völlur heim að sækja og sýndi sig kannski í gær þegar Hamar sigraði KR“ bætti  Pétur við. 

Haukar ætla að brydda upp á nýjungum fyrir leiki sína í vetur og klukkutíma fyrir leik verður kveikt undir grillinu seldir verða ljúffengir Haukaborgarar . Einnig verður boðið upp á barnagæslu á meðan leik stendur og verður þetta því frekar fjölskylduvæn stemning á Ásvöllum.

Eins og fram kemur í orðsendingu til stuðningsmanna þá þurfa þeir sem ætluðu að horfa á landsleik 21-liðsins ekki að hafa áhyggjur því opið verður fyrir sjónvarpið fyrir þá sem vilja fylgjast með.

Þá er bara að mæta á Ásvelli í kvöld og berja lið Hauka í efstu deild augum og hvetja við baráttu þeirra. Leikurinn hefst kl. 19:15

Áfram Haukar.