Á morgun mætast Haukar og Breiðablik á heimavelli okkar á Vodafone-vellinum við Hlíðarenda. Leikurinn hefst klukkan 19:15.
Þetta verður án efa hörkuleikur, Breiðblik eru í baráttu á toppnum í deildinni en Haukar bíða enn eftir fyrsta sigurleiknum í deildinni og eru orðnir mjög svo hungraðir í hann.
Bæði lið duttu útúr Visa-bikarnum í vikunni, Haukar töpuðu fyrir Fjölni 2-0 á heimavelli eftir herfilega lélegan leik en Blikar sem eru núverandi bikarmeistarar töpuðu fyrir FH í vítaspyrnukeppni á Kópavogsvelli.
Ennþá er nokkuð um meiðsli í herbúðum Hauka en þeim fer að fækka með hverjum deginum, það er að segja ef ekki bætist einhverjir við. Gleðifréttirnar hljóta að vera þær að Ásgeir Þór Ingólfsson er orðinn nokkuð góður eftir meiðsli og er líklegt að hann verði í hóp á morgun í fyrsta sinn í sumar. Arnar Gunnlaugsson mun væntanlega vera einnig í hóp á morgun eftir að hafa misst af síðustu þremur leikjum.
Eftir sitja, Hilmararnir tveir, Trausti og Emils. og Garðar Ingvar Geirsson, en hann gifti sig einmitt á föstudaginn og óskum við honum til hamingju með það.
Nú verðum við Haukarar að standa saman í þessari baráttu sem við erum komin í tímabundið vonandi, fallbaráttan. Það er eitt sem er ljóst, að það styttist alltaf í fyrsta sigurleikinn og ætlar þú að missa af honum?
Fjölmennum á heimavöll okkar á morgun & hvetjum liðið til sigurs! ÁFRAM…. HAUKAR!