Stórkostlegur stuðningur og sannfærandi sigur

HaukarEinstök stemmning var á Ásvöllum á þriðjudagskvöldið þegar Haukar tóku á móti Val í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitil N1 deildar karla. Stuðningur áhorfenda var hreint út sagt stórkostlegur og eiga stuðningsmenn beggja liða bestu þakkir fyrir að skapa umgjörð af þessu tagi um þetta úrslitaeinvígi. Það er vegna upplifana á borð við þá sem áhorfendur og leikmenn fengu notið á þriðjudaginn sem úrslitakeppni á rétt á sér. Önnur eins stemmning og spenna gæti seint skapast í venjulegri deildarkeppni. Haukaliðið mætti loks til leiks og sýndi hvers það er megnugt og hvers vegna liðið er handhafi allra titla sem í boði eru. Hvattir áfram af frábærum stuðningsmönnum og með mikillu samstöðu innan liðsins unnu þeir sannfærandi sigur á Valsmönnum 30-24 og tryggðu sér mikilvæga forystu, 2-1, í einvíginu. Haukar geta því tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í næsta leik. Hann fer fram kl. 19:30 á fimmtudagskvöldið að Hlíðarenda. Allt Haukafólk er hvatt til að mæta í hvítu!

Það varð snemma ljóst að allt annar bragur var á leik Haukaliðsins en í fyrstu leikjum einvígisins. Baráttan skein út úr hverju andliti og spennustigið, sem hafði verið alltof hátt hjá nokkrum lykilleikmönnum, virtist hafa náð góðu jafnvægi og menn hreinlega nutu þess að spila saman hylltir áfram af dynjandi lófataki og öskrum. Fyrir leikinn hafði öflugur hópur stuðningsmanna tekið sig saman og stjórnuðu stemmningunni í þéttsetinni Haukastúkunni með þvílíkum krafti að annað eins hefur ekki sést í áraraðir. Sóknarleikur liðsins var betri en í fyrstu leikjunum tveimur auk þess sem fjöldi marka kom úr hraðaupphlaupum. Valsmenn áttu í mestu vandræðum með að skapa sér færi og má segja að um tveggja manna her hafi verið að ræða í formi Sigurðar Eggertssonar og Arnórs Þórs Gunnarssonar sem skoruðu tæplega tvö af hverjum þremur mörkum liðsins. Þá munaði um minna fyrir Valsmenn að Hlynur Morthens fann sig ekki í markinu og Fannari Þór Friðgeirssyni var haldið niðri af öflugum varnarleik Hauka en hann hafði reynst Haukum erfiður ljár í þúfu í fyrstu leikjunum.

Forskot Hauka var einungis tvö mörk í hálfleik, 13-11 en undir miðbik síðari hálfleiks var munurinn orðinn fimm mörk og sigurinn aldrei í hættu eftir það. Það er erfitt að taka einstaka menn út úr Haukaliðinu enda allir að spila vel. Sigurbergur var mjög sterkur og var markahæstur með níu mörk, þar af þrjú úr vítum. Björgvin kom næstur með fimm mörk og var hann að spila miklu betur en í öðrum leiknum, einbeitingin var svo sannarlega til staðar og ljóst af öllum handbrögðum hans að hann ætlaði sér sigur. Elías Már átti sömuleiðis skínandi leik og Freyr Brynjarsson steig upp og spilaði eins og hans er von og vísa en hann hafði ekki fundið taktinn í fyrstu tveimur leikjunum. Freyr er ekki leikmaður sem lætur undan þótt á móti blási og það sýndi hann enn eina ferðina. Þá má ekki gleyma línumanninum sterka Pétri Pálssyni sem hefur undirstrikað í þessari úrslitakeppni hversu öflugur leikmaður hann er. Það var helst að markvarslan væri nokkuð frá sínu besta en þó var það þannig að fleiri skot voru varin Haukamegin en Valsmegin.

Frábærar myndasyrpur frá leiknum má nálgast hér og hér auk þess sem myndir frá leiknum munu koma inn á Haukasíðuna næstu daga.