Fimm dagar í fyrsta leik og Geirfuglinn fílar það

Hilmar Geir stefnir á met í sumarÍ dag er eins og fyrirsögn þessara fréttir segir, einungis fimm dagar í fyrsta leik Hauka í Pepsi-deildinni gegn KR í Frostaskjólinu. Þar verður Geirfugl okkar Haukamanna, Hilmar Geir Eiðsson, vonandi á fljúgandi siglingu upp kantana. 

Hilmar Geir situr fyrir svörum á Haukar.is í dag, en þar segir hann til að mynda það, að Haukar stefni á að setja met í sumar.

 

Nú eru þið komnir frá Portúgal, hvernig var sú ferð?
Þessar æfingaferðir eru alltaf skemmtilegar, enda samansafn af algjörum fagmönnum í hverri ferð. Veðrið hefði þó mátt vera betra, enda var rigning í 5 daga.

Var eitthvað sem stóð uppúr í ferðinni?
Það er af mörgu að taka, en sigurinn gegn Val og snilldar aukaspyrna Kristján Óla var frábært móment. Einnig eru ótal skipti sem Jónmundur eða Flippmundur Grétarsson eins og við viljum kalla hann, gerði okkur glaðan dag.

Nú hefur þú verið að glíma við einhver meiðsli í vetur, hvernig er ástandið á þér þessa dagana?
Formið er að koma hægt og rólega, ef allt gengur upp þá ætti ég að vera nálægt mínu besta þegar flautað verður til leiks gegn KR.

Ef þú lítur til baka, þegar þú varst unglingur í 3.deildarfélagi Hauka, getur þú gert þér virkilega grein fyrir því að þú sért að fara spila með sama félaginu í Pepsi-deildinni eftir innan við mánuð?
Skemmtilegt að segja frá því að ég fann gamalt blað þar sem ég hafði skrifað niður markmið mín, næstu 3 ár. Var þetta allt partur af verkefni sem Andri Marteins lét okkur gera þegar við vorum í C-deildinni, en það vill svo skemmtilega til að öll mín markmið urðu að veruleika. Þannig að já ég átta mig á því að ég sé að fara upplifa markmið og draum minn til nokkura ára.

Hvert er raunverulegt markmið fyrir sumarið?
Við eigum enn eftir að setjast niður og finna skýr markmið innan liðsins, kemur í ljós á næstu dögum geri ég ráð fyrir.

Má búast við að Haukaliðið sæki eða verjist í sumar?Geri fastlega ráð fyrir að verjast þegar við erum ekki með boltann og sækja þegar við erum með hann. Spurningin er því hvort við ætlum að halda boltanum innan liðsins og það er e-ð sem við í Haukunum getum auðveldlega gert.

Hefur þú sett þér sjálfum einhver persónuleg markmið?
Er að vinna í þeim…

Hverjir verða styrkleikar Hauka í sumar?
Liðsheildin, líkamlegt form og besti árangur á útivelli frá upphafi úrvalsdeildarinnar(enda spilum við 22 á útivelli)

Hverjir verða Íslandsmeistarar í knattspyrnu 2010?
Alveg sama… veit bara að Haukar verða það einhvertímann á næstu árum.

Við þökkum Hilmari kærlega fyrir þetta, en það eru Hilmars-dagar á Haukasíðunni því á næstu dögum birtum við viðtöl við hina Hilmara tvo í hópnum, þá Hilmar Rafn Emilsson og Hilmar Trausta Arnarsson.