Nýr leikmaður gekk til liðs við bikarmeistara Hauka í dag þegar Gunnhildur Gunnarsdóttir skrifaði undir samning við félagið í morgun. Gunnhildur lék með Snæfelli úr Stykkishólmi á síðustu leiktíð í Iceland Express deildinni.
Gunnhildur var með 11,8 stig að meðaltali í leik hjá Snæfelli í fyrra, 4,2 fráköst og 3,5 stoðsendingar að meðaltali.
Henning Henningsson þjálfari bikarmeistaranna var að vonum ánægður við undirskrift og talaði um að þarna væri ungur leikmaður sem spilaði lykilhlutverk hjá Snæfelli á síðustu leiktíð á ferð sem kæmi til með að styrkja hóp Hauka.
,,Ég er auðvitað mjög ánægður með að sterkur leikmaður eins og Gunnhildur velji að koma í Hauka. Hér hefur verið unnið mjög gott starf í kvennaboltanum undanfarin mörg ár og ekki að sjá að það verði nein breyting á því á næstu árum. Það má segja að koma Gunnhildar sé ákveðin viðurkenning á því að í Haukum er unnið gott starf. Hún þekkir vel til nokkurra leikmanna úr Haukaliðinu því hún hefur spilað með yngri landsliðum Íslands og verið þar liðsfélagi nokkurra af okkar Hauka-stelpum.
Gunnhildur er ein af efnilegri leikmönnum deildarinnar og hún mun falla vel inn í lið Hauka á næstu leiktíð. Hún er ungur leikmaður en var engu að síður í lykilhlutverki hjá Snæfelli í vetur og stóð sig mjög vel. Gunnhildur hefur verið í mikilli framför undanfarin ár og vonandi verður framhald á framförum hennar í Haukabúningnum.“
Við bjóðum Gunnhildi hjartanlega velkomna í Fjörðinn.