Haukar og Stjarnan mættust í næstu síðustu umferð N1-deildar karla í ár, á Ásvöllum. Haukar voru þegar orðnir Deildarmeistarar en Stjarnan er í harðri fallbaráttu.
Haukar byrjuðu betur og komust fljótlega yfir og eftir fimm mínútna leik voru Haukar komnir 4-1 yfir með mörkum frá Sigurbergi og Einari Erni. Gestirnir voru hinsvegar fljótir að jafna í 4-4.
Næstu mínútur voru Haukamanna því þeir bættu í sóknarlega sem og varnarlega og breyttu stöðunni í 12-6. Í stöðunni 14-7 tók Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar síðan leikhlé. Eftir leikhlé-ið minnkuðu Stjörnumenn muninn í fjögur mörk en nær komust þeir ekki og staðan í hálfleik 18-12 Haukum í vil.
Stjarnan byrjaði síðari hálfleikinn mun ákveðnari og minnkuðu muninn strax í þrjú mörk 19-16. En þá tóku lærisveinar Arons Kristjánssonar við sér og skoruðu næstu sex mörk og skyndilega var munurinn orðinn níu mörk, 25-16. Haukar bættu síðan í, og komust tíu mörkum yfir þegar rétt rúmlega 10 mínútur voru eftir að leiknum, 29-19.
Haukar héldu því forskoti út leikinn og gott betur en það því lokatölur í leiknum urðu 35-23 Haukum í vil.
Markahæstur hjá Haukum var Sigurbergur Sveinsson með 7 mörk. Einar Örn gerði sex mörk. Vinstri hornamennirnir, gerðu ellefu mörk samtals, Þórður Rafn skoraði sex og Freyr fimm, Björgvin Hólmgeirsson skoraði fjögur, Pétur Pálsson þrjú, Guðmundur Árni, Tjörvi, Heimir Óli og Gísli Jón skoruðu síðan eitt mark hver.
Aron Rafn varði hvorki fleiri né færri en 26 bolta og var maður leiksins.
Næsti leikur Hauka er gegn Akureyri á fimmtudaginn á Ásvöllum klukkan 19:30. Sá leikur er seinasti leikur Hauka í deildinni.