Undanfarna daga, vikur og mánuði hefur fjöldi fólks lagt á sig mikla vinnu, veitt styrki og hvatningu til að hópur manna geti látið draum sinn rætast um að etja kappi við sterk evrópsk lið á handboltavellinum. Þátttaka í Evrópukeppni í handbolta er fjarri því að vera sú tekjulind sem þekkist úr knattspyrnuheiminum. Því eru þeir til sem spyrja sig hvort íslensk lið eigi yfirhöfuð erindi í keppni utan landsteinana með þeim kostnaði og vinnu sem því fylgir. Haukar hafa yfirleitt svarað þessum efasemdum á einn veg. Þetta er ellefta árið sem félagið tekur þátt í keppni þeirra bestu og þrátt fyrir efnahagsþrengingar undangenginna missera hefur félagið valið að setja þátttöku í Evrópukeppni framalega í forgangsröðunina. Fyrir því liggja þrjár meginástæður:
Í fyrsta lagi lítum við á það sem skyldu okkar sem Íslandsmeistara að halda lofti íslensks handknattleiks hátt á lofti. Við erum handknattleiksþjóð, höfum oft náð góðum árangri á alþjóðavettvangi og eigum fullt erindi í keppni fremstu félagsliða álfunnar. Í öðru lagi viljum við búa handknattleiksmenn okkar undir þátttöku í landsliði og sterkum félagsliðum utan landsteinanna þangað sem margir ungir handknattleiksmenn horfa með því að veita þeim þá reynslu sem fylgir Evrópuleikjum. Í þriðja lagi erum við Haukafólk sannfært um að þátttaka í Evrópukeppni er ein af lykilforsendum þess árangurs sem við höfum náð á innlendum vettvangi undafarin ár. Kastljós fjölmiðla beinist oft að misjöfnu gengi liða í innlendri deildarkeppni þegar þau leika í Evrópukeppni á sama tíma. Minni athygli beinist að því að það eru einmitt sömu lið sem fara með sigur af hólmi í úrslitakeppnum og bikarkeppnum þar sem allt getur oltið á úrslitum eins leiks. Þessi tilhneiging er engin tilviljun. Lið sem búa að reynslu frá þátttöku í Evrópukeppni geta oft á ögurstundu kallað fram þá einstöku blöndu af sterkri einbeitingu, sannri samheldni, dýrslegri baráttu og stóískri ró sem þátttaka í Evrópukeppnum færir liðum sem nýta hana rétt. Góður árangur Hauka og fjölmargra leikmanna sem hafa verið þátttakendur í ævintýrinu með okkur undanfarin ár er ekki síst tilkomin vegna þeirrar reynslu sem hefur safnast í áranna rás á handboltavöllum víðs vegar um álfuna.
Í síðasta mánuði lögðu Haukastrákarnir land undir fót og náðu mjög hagstæðum úrslitum gegn sterku pólsku liði sem kom viku seinna vængbrotið til landsins og gáfust upp eftir frábæran fyrri hálfleik okkar manna þar sem einbeiting, vilji og barátta skein úr hverju andliti. Í gær lék liðið fyrri leik sinn gegn sterku ungversku liði, Pler KC, og lauk leiknum með jafntefli 26-26. Í leiknum skorti verulega á þessu einstöku blöndu sem ég lýsti hér á undan. Áhorfendur voru sömuleiðis fremur fámennir. Eru leikmenn og stuðningsmenn íslensks handknattleiks að gleyma því hvað þarf til að ná árangri í Evrópukeppni? Höldum við að við eigum möguleika á að komast áfram án þess að allt sé lagt í sölurnar og án áttunda mannsins í pöllunum? Strákarnir ætla að svara fyrir sitt leyti inn á vellinum síðar í dag í hreinum úrslitaleik þegar liðin mætast á ný kl. 18 á Ásvöllum. Hvert verður svar stuðningsmanna íslensks handknattleiks? Ég heiti á alla stuðningsmenn, hvar í liði sem þeir skipa sér á innlendum vettvangi, að fjölmenna á Ásvelli og styðja við bakið á íslensku félagsliði. Við þurfum á ykkar stuðningi að halda.
Þorvarður Tjörvi Ólafsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka