Haukar og ungverska liðið Pler KC skildu jöfn í fyrri leik liðanna í 3. umferð Evrópukeppni félagsliða sem var að ljúka að Ásvöllum. Spennan magnast því fyrir seinni leikinn á morgun kl. 18 . Einar Örn Jónsson skoraði jöfnunarmarkið á síðustu sekúndu leiksins og lokaúrslit 26-26. Haukar höfðu á brattan að sækja allan leikinn og voru undir 10-14 í hálfleik. Það skorti verulega á þá grimmd sem hefur einkennt liðið í fyrri Evrópuleikjum. Úrslitin munu vonandi brýna strákana en þeir þurfa að mæta dýrvitlausir á morgun til að komast áfram í 16-liða úrslit.
Ungverjarnir hófu leikinn á því að taka Sigurberg Sveinsson úr umferð og mættu ákveðnir til leiks á meðan Haukastrákarnir voru fjarri sínu besta. Í fyrri hálfleik hélt Björgvin Hólmgeirsson liðinu inní leiknum en það er sjaldséð sjón að okkar menn skori einungis tíu mörk í einum hálfleik. Strákarnir tóku sig nokkuð á í seinni hálfleik og jöfnuðu metin 22-22 þegar u.þ.b. tíu mínútur voru eftir en lentu á ný þremur mörkum undir 22-25 þegar skammt var eftir. Aron Kristjánsson tók þá leikhlé og gerði nokkrar breytingar á liðinu. Strákarnir unnu sig þá aftur inn í leikinn og náðu jafntefli eins og áður segir.
Pétur Pálsson var skeinuhættur á línunni og barðist af sin velkunnu hörku. Aron Rafn varði ágætlega í markinu og Elías Már var mikilvægur undir lok leiksins. Liðið á hins vegar mikið inni og þarf að gera betur á morgun.
Hornamenn ungverska liðsins áttu góðan dag og skoruðu grimmt. Peter Lendvay var klókur fyrir utan eins og búist var við. Í heild var liðið léttleikandi og klókt í sinni spilamennsku. Allar forsendur eru því fyrir skemmtilegum leik á morgun.
Hér að neðan má sjá myndir úr leik liðanna í dag.