Haukar unnu sigur á Hamri í fjórða leik liðanna í undanúrslitum kvenna í úrslitakeppni Iceland Express-deild kvenna sem fram fór í Hveragerði í kvöld. Fóru leikar 65:69 Haukum í vil og eru stúlkurnar því komnar í úrslit. Þar mæta þær KR en Vesturbæingar lögðu Íslandsmeistarana frá Keflavík sannfærandi 3-0.
Leikurinn var æsispennandi en Hamar leiddi megnið af leiknum. Munurinn vaðr mestur 14 stig, en Haukar gáfust ekki upp og söxuðu smám saman á forskot Hamars. Í fjórða leikhluta komust þær í fyrsta skipti yfir síðan í byrjun leiks, 62:64, og hömpuðu loks sigri.
Stigahæst Hauka var Kristrún Sigurjónsdóttir með 24 stig en henni næst var Monika Knight með 13.
Hjá Hamri var Íris Ásgeirsdóttir með 17 stig, en LaKiste Barkus gerði 15.