Næstkomandi föstudagskvöld hefst úrslitakeppni 1. deildar karla í körfuknattleik. Haukar hefja leik á heimavelli og mæta Fjölni á Ásvöllum og hefst leikurinn kl. 19:15.
Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst áfram í úrslitin og mætir annað hvort Val eða KFÍ. Í úrslitum þarf að vinna tvo leiki til þess að tryggja sér sæti í Iceland Express-deild karla að ári.
Haukar og Fjölnir hafa mæst tvisvar sinnum á tímabilinu og hafa Haukar unnið báða leikina. Fyrri viðureign félaganna var í Grafarvogi í nóvember þar sem Haukar unnu 72-74. Leikurinn var spennandi alveg fram á lokamínútuna en Haukar reyndust sterkari í lokin. Seinni leikur liðanna var í febrúar en þá unnu Haukar einnig og var seinni leikurinn eins og sá fyrri, hörkuspennandi leikur þar sem úrslit réðust á lokasprettinum. Haukar unnu með tveim stigum 77-75.
Heimasíðan hvetur alla til að fjölmenna á völlinn og hvetja strákana.
HAUKAR-FJÖLNIR
1. leikur Haukar-Fjölnir föstudagurinn 20. mars kl. 19.15 – Ásvellir
2. leikur Fjölnir-Haukar sunnudagurinn 22. mars kl. 19.15 – Grafarvogur
3. leikur Haukar-Fjölnir þriðjudaginn 24. mars kl. 19.15 – Ásvellir ODDALEIKUR EF ÞARF
Mynd: Frá fyrri viðureign þessa liða í vetur. Gunnar Magnússon er hér að keyra að körfu Fjölnismanna. Fjölnismaðurinn Tryggvi Pálsson brýtur á Gunnari – stefan@haukar.is