Hvað segir Freyr Brynjarsson ? Haukar – FH á morgun

Við fengum hornamanninn og varnartröllið Freyr Brynjarsson í stutt viðtal fyrir stórleik morgundagsins, leiknum sem enginn Hafnfirðingur né handboltaáhugamaður hér á landi ætti að láta framhjá sér fara, leik Hauka og FH í N1-deld karla sem fer fram á Ásvöllum á morgun klukkan 19:30.

Freyr er hinn hressasti maður og er bjartsýnn fyrir morgundeginum, eins og hver annar Haukamaður ætti að vera enda munum við öll hvernig síðasti leikur endaði á Ásvöllum. Ekki nema tólf markasigur, 34-22.

 „Stemmingin er góð, enda höfum við unnið hvern leikinn á fætur öðrum undanfarið og við ætlum okkur að halda áfram á sömu braut annað kvöld,“ sagði Freyr Brynjarsson aðspurður um stemminguna í hópnum fyrir leiknum á morgun. En næst spurðum við hann um leikina gegn FH í vetur og svo um það hvernig leik við megum búast við á morgun,

„Það var grátlegt að hafa tapað þessum leikjum (tveimur leikjum gegn FH fyrir jól) og þá sérstaklega bikarleiknum. Í leiknum á Ásvöllum kom ekkert annað til greina en sigur og ég tel að þó svo að þeir tveir (Aron Pálmarsson og Ólafur Guðmundsson) hefðu verið með þá hefðum við pottþétt sigrað. Það er ekki til nein afsökun þegar menn tapa með tólf marka mun. Það verður án efa tekið hart á því á morgun og við komum til með að selja okkur dýrt enda eru FH-ingar ennþá 2-1 yfir í leikjum liðana í vetur.“

„Fólk má búast við háspennuleik þar sem barist verður til síðasta blóðdropa. Við tökum alltaf bara einn leik fyrir í einu og það alveg ljóst að við ætlum okkur sigur á morgun. Við erum að spila hörkuvörn þessa dagana og það verður í höndum FH-inganna að komast í gegnum hana ef þeir ætla sér sigur,“ sagði Freyr en að lokum spurðum við hann út í deildina og hverju hann spáir um það hvaða lið komist í 4-liða úrslitakeppnina ?

„Þetta verður barátta milli HK, FH og Akureyri. Ég held að Fram vinni Val á morgun og komi sér nokkuð vel fyrir. Hjá hinum liðunum verður hart barist til síðasta leiks og á endanum verður þetta barátta milli HK og FH um 4.sætið. HK-menn standa betur að vígi þar sem þeir hafa unnið alla þrjá leikina gegn FH í vetur. Verður maður þá ekki að segja að það verði HK sem taka 4.sætið.“

Við þökkum Frey fyrir þetta og vonum að hann og liðsfélagar hans eigi eftir að blómstra á morgun og fara heim með tvö stig.