Haukar í toppsæti N1 deildar að nýju

Kári Kristján Kristjánsson spilaði vel í dag og var markahæsturÍ dag tóku Haukamenn á móti Valsmönnum í N1 deild karla. Fyrir leikinn voru liðin í efstu tveimur sætum deildarinnar, Valur í efsta sæti og Haukar í öðru. Aðeins einu stigi munaði á liðunum og því ljóst að það lið sem næði fram sigri í dag yrði í toppsæti deildarinnar eftir leikinn. Haukar höfðu leikið 14 leiki en Valur 15. 

Valsmenn byrjuðu leikinn betur en Haukamenn voru náðu forystunni í stöðunni 5-4 og létu forystuna aldrei af hendi eftir það. Þeir fögnuðu svo að lokum þriggja marka sigri, 25 – 22, og náðu því toppsæti deildarinnar. Þar hafa þeir eins stigs forskot á Valsmenn en geta aukið forskotið í þrjú stig á miðvikudaginn þegar þeir taka á móti Víkingum.

 

Valsmenn byrjuðu betur og voru ávallt skrefinu á undan þar til í stöðunni 4-4. Þá tók Óskar Bjarni, þjálfari Vals, leikhlé en það leikhlé nýttu Haukamenn betur því eftir leikhléið náðu þeir forystunni, 5-4, og héldu henni út leikinn. Staðan í hálfleik var 14 – 12 en Sigurbergur Sveinsson var atkvæðamestur í liði Hauka í hálfleiknum með 5 mörk. Haukar komust í 13 – 9 en með þremur mörkum Sigurðar Eggertssonar í röð náðu Valsmenn að minnka muninn fyrir hlé.

 

Í síðari hálfleiknum héldu Haukamenn forystunni áfram. Liðin skiptust á að skora í byrjun hálfleiksins en Sigurður Eggertsson hélt uppteknum hætti frá því í lok fyrri hálfleiks og skoraði fyrstu tvö mörk Valsmanna. Voru mörk hans því fimm í röð í kringum hálfleikinn. Það voru hins vegar einu mörk hans í leiknum.

Haukar náðu mest sex marka forskoti, 24 – 18 en Valsmenn náðu að minnka muninn fyrir leikslok og fór svo að lokum að Haukar sigruðu með þremur mörkum, 25 – 22.

Markahæstur í liði Hauka var Kári Kristján Kristjánsson sem skoraði 8 mörk. Sigurbergur Sveinsson kom honum næstur með 7 mörk og Freyr Brynjarsson skoraði 4. Þeir Andri Stefan, Elías Már Halldórsson og Einar Örn Jónsson skoruðu 2 mörk hver.

Í liði Vals var það Fannar Þór Friðgeirsson sem var markahæstur einnig með 8 mörk. Þeir Sigurður Eggertsson og Arnór Þór Gunnarsson skoruðu 5 mörk hvor, Hjalti Gylfason skoraði 2 mörk og þeir Hjalti Þór Pálmason og Elvar Friðgeirsson skoruðu eitt mark hvor.

Hinn gamalkunni Dagur Sigurðsson var í leikmannahópi Vals í dag og lék hann síðustu tíu mínútur leiksins. 

Með sigrinum komust Haukar upp fyrir Valsmenn á toppi deildarinnar. Þeir eru nú með 22 stig, stigi meira en Valsmenn. Í þriðja sæti er svo lið Fram með 19 stig. FHingar eru í fjórða sætinu með 18 stig, HK með 17 og Akureyri 15. Í tveimur neðstu sætum deildarinnar eru svo Stjarnan með 9 stig og Víkingur með 5 stig. Það er því ljóst að barátta verður um öll sæti deildarinnar í síðustu 5 leikjunum. Haukar eiga þó leik til góða og geta aukið forskot sitt á toppi deildarinnar í þrjú stig á miðvikudaginn þegar þeir taka á móti Víkingum á Ásvöllum klukkan 19:30.