Unglingaflokkur kvenna í bikarúrslit

Unglingaflokkur kvenna tryggði sér í gærkvöldi farseðilinn í bikarúrslit yngri flokka með sigri á Grindvíkingum í jöfnum leik, 64 – 63.

Jafnt var á með liðunum mestan hluta leiksins en gestirnir úr Grindavík voru þó yfirleitt einu skrefi á undan. Greina mátti þreytumerki á lykilmönnum beggja liða, en sumir að spila sinn þriðja leik á fjórum dögum. Guðbjörg Sverrisdóttir, sem var að spila sinn fjórða leik á jafmörgum dögum, átti skínandi leik. Þessi fjölhæfi leikmaður sem leikið hefur stóran framherja í leikjum meistaraflokks undanfarið, spilaði leikstjórnanda mestan hluta leiksins og leiddi lið sitt í stigum, auk þess sem hún skoraði sigurkörfuna 44 sekúndum fyrir leikslok. Grindvíkingar fengu tvær sóknir til að næla sér í sigurinn; í seinna skiptið skoraði Íris Sverrisdóttir körfu utan af velli, en góðir dómarar leiksins dæmdu körfuna réttilega af þar sem tíminn rann út áður en hún sleppti boltanum og því tilþrifalítill Haukasigur í höfn.

Ragna Margrét Brynjarsdóttir átti auk Guðbjargar fínan leik, sér í lagi varnarlega. Þessi stæðilegi miðherji tók á þriðja tug frákasta og varði á annan tug skota í leiknum og batt vörnina vel saman auk þess að skora 11 stig.

Helena Hólm skoraði mikilvægar körfur þegar Haukar náðu loks forystunni í byrjun fjórða leikhluta en líkt og aðrir leikmenn liðsins mátti greina þreytumerki á henni eftir leiki vikunnar. Bryndís Hreinsdóttir spilaði af sínum einskæra dugnaði en náði sér þó ekki á strik sóknarlega. Kristín Fjóla Reynisdóttir var að spila sinn fyrsta leik eftir flensu og María Lind Sigurðardóttir komst ágætlega frá sínu. Einnig er gaman að sjá að Klara Guðmundsdóttir er komin aftur á stjá eftir erfið meiðsli og kom með góða baráttu af bekknum.

Hjá Grindavík var Íris Sverrisdóttir allt í öllu með 27 stig en aðrir skoruðu minna.

Stig Hauka: Guðbjörg 33,  Ragna Margrét 11, Helena 10, María Lind 6, Kristín og Bryndís 2 stig hvor.

Úrslitin fara fram helgina 28. febrúar til 1. mars.

MD

Mynd: Helena Hólm og vinkonur hennar í unglingaflokki spila til úrslita í bikarnum – Ásgeir Örn Jóhannsson