Rautt spjald fyrir óviljaverk

Ramune PekarskyteSíðunni hefur borist grein frá Hermanni Þórðarsyni, fyrrverandi formanni félagsins, þar sem hann veltir fyrir sér rauðu spjaldi sem Ramune fékk gegn Stjörnunni á laugardaginn. Með því að smella á „lesa meira“ er hægt að sjá bréfið í heild.

Í leik Stjörnunnar og Hauka í úrvalsdeild kvenna 7. febrúar s.l.varð það óhapp að Ramune Pekarskyte, leikmaður Hauka og Alina Petrache leikmaður Stjörnunnar rákust saman með þeim afleiðingum að Aline féll í gólfið. Samkvæmt myndbandi af atvikinu er það greinilegt að Aline stekkur upp á móti Ramune þegar sú síðarnefnda er að skjóta á mark Stjörnunnar. Þetta er því greinilega ekki ásetningsbrot og verður því að flokkast undir slæm mistök dómara leiksins að gefa Ramune rauða spjaldið fyrir þetta “brot”. Ekki var að sjá að Aline yrði meint af högginu því hún hélt ótrauð áfram í leiknum eins og ekkert hefði í skorist en Ramune kveinkaði sér eftir áreksturinn sem bendir til þess að Aline hafi verið orsakavaldurinn. Haukar áfríuðu rauða spjaldinu til aganefndar HSÍ, en það kom ekki í veg fyrir að Ramune hlyti eins leiks bann fyrir atvikið. Það einkennilega við þetta er að Ramune er látin taka út bannið í annarri keppni en atvikið átti sér stað í, eða bikarkeppninni. Þetta þekkist ekki í öðrum löndum. Í úrskurði aganefndar HSÍ segir: …”það er ekki á færi aganefndar að endurskoða ákvarðanir dómara í leik” !! Við sjáum oft slíka úrskurði endurskoðaða t.d. í ensku knattspyrnunni og er þá oftast stuðst við myndbönd af atvikinu. Á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í handknattleik karla í Króatíu fékk leikmaður Frakka rautt spjald fyrir að skjóta knettinum (óviljandi að sjálfsögðu) í höfuð markvarðar Dana í undanúrslitaleik mótsins. Það hefði því átt að þýða leikbann þessa leikmanns í úrslitaleiknum. Frakkar áfríuðu rauða spjaldinu og niðurstaðan varð sú að rauða spjaldið var dregið til baka. Þarna verður HSÍ að taka til hendinni og breyta sínum reglum því dómarar eru ekki óskeikulir frekar en aðrir menn. Það er einnig ámælisvert að ekki skuli vera hægt að áfría dómnum til hærra valds, t.d. stjórnar HSÍ. Ramune er besta skytta Haukanna og einhver sú besta í deildinni allri. Að síðustu skal það tekið fram að Ramune er með prúðustu leikmönnum deildarinnar og fær sjaldan dæmd á sig brot þótt hún sé yfirleitt alltaf tekin úr umferð af andstæðingunum sem getur verið pirrandi og hún mótmælir aldrei dómum.

Hermann :Þórðarson

Fyrrverandi formaður Hauka