Á laugardaginn næstkomandi mætast Haukar og Grindavík í æfingaleik í Kórnum. Leikurinn hefst klukkan 16:30.
Undanfarna tvo laugardaga hafa Haukar farið með sigur úr bítum í tveimur æfingarleikjum fyrst gegn 1.deildarliði Aftureldingar, 5-0 þar sem Hilmar Rafn Emilsson skoraði þrjú mörk og þeir Úlfar Hrafn Pálsson og Ásgeir Ingólfsson sitt markið hvor.
Síðasta laugardag sigruðu Haukar svo Landsbankadeildarlið Keflavíkur nokkuð örugglega 3-0 en þar voru Haukar með undirtökin í leiknum allan leikinn og voru mun betri aðilinn. Hilmar Geir Eiðsson skoraði tvö glæsileg mörk og Ásgeir Ingólfsson skoraði svo þriðja markið í leiknum sem var als ekki síðra en mörkin hjá Hilmari.
Það er greinilegt að liðið er að taka vel á því á æfingum í kuldanum hjá Andra Marteinssyni en liðið hefur verið að spila fanta vel í æfingaleikjum til þessa og því hvetjum við Haukafólk eindregið að mæta í Kórinn á laugardaginn.
Í síðustu leikjum hefur nýr leikmaður verið að spila með Haukum en það er hann Þórarinn Borgþórsson en á síðasta tímabili lék hann með Hetti í 2.deildinni en þar áður hefur hann leikið með Aftureldingu og Hugin frá Seyðisfirði. Þórarinn hefur spilað síðustu tvo æfingaleiki með Haukum í hægri bakverði og staðið sig nokkuð vel en enn er ekki orðið ljóst hvort að hann mun fá samning hjá Haukum.