Á laugardaginn mæta Haukastelpur liði Stjörnunnar á Ásvöllum. Leikurinn er undanúrslitaleikur í Eimskipsbikar kvenna en í hinum leik undanúrslitanna leika KA/Þór og FH á Akureyri. Við munum fram að leik fjalla um leikinn en í morgun birtum við nokkra punkta um liðin. Við höfðum samband við Díönu Guðjónsdóttur, þjálfara Haukaliðsins, og lögðum fyrir hana nokkrar spurningar.
Eins og fram hefur komið á heimasíðunni munu Haukar leika án Ramune Pekarskyta, sem í gær var valin besti leikmaður umferða 8 til 14 í N1 deild kvenna. Ramune fékk mjög umdeilt rautt spjald í leik Hauka og Stjörnunnar síðastliðinn laugardag og þrátt fyrir áfrýjun Haukamanna var Ramune dæmd í eins leiks bann.
Nú fékk Ramune eins leiks bann, sem Haukamenn eru sennilega ekki sáttir við. Mun það setja strik í reikninginn hjá ykkur?
Já auðvitað hefur það áhrif enda besti leikamaðurinn í deildinni en við munum mæta með 14 leikmenn til leiks sem allir verða klárir. En síðan er spurning hvort ekki eigi að skoða það að leikmaður sem fær rautt spjald í deildinni hvort það eigi að taka gildi í bikarkeppninni. Í sumum löndum er þetta þannig að leikmaður fær rautt í deild þá tekur hann bannið út í deildinni.
Það virtist ganga vel í Garðabænum síðastliðinn laugardag að ganga vel út í Alinu Petrache. Einnig hafði það mikil áhrif á hana þegar áhorfendur Hauka púuðu á hana eftir að Ramune fékk rautt spjald. Er leiðin til að stöðva Stjörnuna að stöðva hana með þeim hætti sem þið gerðuð á laugardaginn?
Já það er engin spurning enda fín skytta þar á ferð og því verðum við að taka vel á henni.
Liðið sem sigrar leikinn á laugardaginn leikur annað hvort gegn KA/Þór eða FH í úrslitaleik Eimskipsbikarsins. Má því ekki segja að leikurinn á laugardaginn sé eiginlegur úrslitaleikur keppninnar, þar sem sigurliðið úr þeim leik telst sigurstranglegra í úrslitaleiknum 28. febrúar?
Miðað við stöðuna í deildinni þá má segja það en þetta er allt önnur keppni leikurinn byrjar 0-0 og það getur allt gerst ef liðið mætir ekki tilbúið til leiks.
Þú, eins og við á heimasíðunni, hvetur sennilega fólk til þess að fjölmenna á leikinn. Er eitthvað sem þú vilt segja við áhorfendur?
Þetta verður alveg örugglega hörkuleikur og þið áhorfendur skiptið okkur gríðarlega miklu máli. Gerum allt vitlaust og sýnum hver á besta heimavöllinn á svæðinu.
Við þökkum Díönu fyrir og bendum á að á morgun munum við halda áfram að fjalla um leikinn. Þá munu birtast fleiri viðtöl.