Litlifingur hrökk úr lið

Um tíma leit út fyrir að miðherji Haukaliðsins, Ragna Margrét Brynjarsdóttir, hefði meiðst illa í upphafi annars leikhluta í leik Hauka og Keflavíkur í gær í Iceland Express-deild kvenna í körfubolta.

Ragna Margrét fékk boltan framan á litla fingur og hrökk hann úr lið við efstu liðamót hans. Eftir að sjúkraþjálfarar höfðu litið á hana og kippt honum aftur í lið kom Ragna Margrét aftur inn á völlinn og kláraði leikinn með 11 stig og 10 fráköst.

Að sögn Rögnu Margrétar var þetta alveg hrikalega sárt og hana verkjaði enn í fingurinn þegar Haukasíðan talaði við hana eftir leikinn.

Það hefði verið mikil blóðtaka fyrir Haukaliðið ef Ragna Margrét hefði verið frá í lengri tíma því fyrir er Telma Fjalarsdóttir, sem einnig spilar miðherja, meidd og verður frá í einhvern tíma.

Mynd: Ragna Margrét Brynjarsdóttir í baráttunni – gislifreyr@haukar.is