Heimasíðan fékk Díönu Guðjónsdóttur, þjálfara kvennaliðs Hauka, til að svara nokkrum léttum spurningum um gengi liðsins í vetur. Liðið er eins og stendur í efsta sæti N1 deildarinnar og komið í undanúrslit Eimskipsbikarsins.
Nú er Haukaliðið komið í efsta sæti N1 deildarinnar að nýju. Er það sætið sem liðið á skilið?
Jú eigum við ekki að segja það. Séum búnar að vinna fyrir þessu og taka einn leik í einu.
Í dag sigraði liðið Stjörnuna þar sem þið voruð með yfirhöndina allan leikinn. Ertu ánægð með þann leik?
Ég var ekki ánægð með fyrri hálfleikinn. Varnarlega fannst mér við gefa þeim alltof mörg ódýr mörk. Leikur liðsins varð betri þegar leið á leikinn og sérstakelga varnarlega og þá kom markvarslan hjá okkur. En þetta var sigur liðsheildarinnar þar sem barátta og sigurvilji skein hjá liðinu. Þessar stelpur sem skipa hópinn hjá okkur eru alveg frábærar og sýndu alveg frábæra takta í dag. Enda erum við í kringum liðið ekkert smá stolt af þeim.
Ramune fékk rautt spjald þegar um 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Eins og þetta leit út fyrir áhorfendur vissi enginn fyrir hvað hún fékk rautt spjald. Getur þú útskýrt það?
Fyrir mér var þetta ekki rautt spjald enda heiðarlegasti leikmaður í deildinni sem myndi aldrei vilja meiða neinn. En réttilega dæmdur ruðningur.
Verður rauða spjaldinu áfrýjað?
Já það er engin spurning.
Nú eru sex leikir eftir í deildinni og þið í efsta sætinu. Er markmiðið að halda sætinu og fagna Íslandsmeistaratitli í vor?
Við stefnum á að fara í hvern leik fyrir sig og taka 2 stig í þeim leikjum sem eftir eru. Þannig að við spjöllum bara aftur saman í vor.
Næsti leikur Hauka er gegn Stjörnunni að nýju. Þá eigast liðin við í undanúrslitaleik Eimskipsbikarsins. Markmiðið er sennilega að endurtaka leikinn frá í dag?
Já það er engin spurning það verður eflaust hörkuleikur á ekki von á öðru þar sem allt er undir.
Nú hefur áhorfendum á leikjum Hauka í N1 deild kvenna fjölgað mikið. Er eitthvað sem Díana vill koma á framfæri við þá áhorfendur?
Já mér og liðinu finnst okkar áhorfendur alveg frábærir, þetta er alveg magnað fólk sem fylgir okkur og gaman að sjá hvað margir hafa bæst í hópinn. Þetta er þéttur hópur og í leiknum í dag leið mér eins og á heimavelli. Þeir eiga mikinn þátt í sigrinum í dag og gengi okkar í deildinni. Vonandi verður allt þetta fólk á Ásvöllum um næstu helgi og tekur með sér fleiri í hópinn.
ÞIÐ ERUÐ FRÁBÆR – TAKK FYRIR STUÐNINGINN-ÁFRAM HAUKAR.
Við þökkum Díönu kærlega fyrir þetta og óskum henni og liðinu hennar til hamingju með sigurinn á Stjörnunni í dag.