Í dag heimsóttu Haukastelpur lið Stjörnunnar í toppslag N1 deildar kvenna. Fyrir leikinn voru Stjörnustelpur í toppsæti deildarinnar stigi á undan Haukastelpum sem voru í öðru sæti deildarinnar. Það var því mikið í húfi en liðið sem sigraði leikinn myndi vera í efsta sæti deildarinnar þegar aðeins 6 leikir eru eftir af mótinu.
Leikurinn endaði með Haukasigri, 30 – 27, í dramatískum leik þar sem meðal annars Ramune fékk rautt spjald sem Haukamenn voru vægast sagt ósáttir við.
Haukastelpur byrjuðu betur og náðu strax yfirhöndinni. Stjörnustelpur voru ávallt að elta og voru Haukastelpur yfir allan fyrri hálfleikinn fyrir utan þegar Stjarnan náði að jafna í stöðunni 11-11 og 13-13. Staðan í hálfleik var 18 – 16, Haukastelpum í vil en Stjarnan náði að minnka muninn úr mjög ódýru vítakasti sem þær fengu á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks.
Lið Stjörnunnar byrjaði síðari hálfleikinn mun betur og náðu að skora fyrstu þrjú mörk hálfleiksins og komast yfir 19 – 18 en það var í eina skiptið í leiknum. Á þessum kafla leiksins átti sér stað mjög dramatískt atvik þegar dómarar leiksins gáfu Ramune Pekarskyte rautt spjald sem enginn áhorfandi Hauka áttaði sig á hvers vegna var gefið. Við mótlætið efldist lið Hauka til muna og var aldrei spurning um hvoru megin sigurinn myndi enda eftir þetta vægast sagt umdeilda atvik.
Haukar leiddu leikinn áfram og fögnuðu svo mjög sanngjörnum þriggja marka sigri 30 – 27. Haukaliðið spilaði mun betur í leiknum og sýndi það að þær eru verðugir handhafar fyrsta sætis deildarinnar.
Markahæst í liðið Hauka var Hanna Guðrún með 10 mörk. Erna Þráinsdóttir skoraði 6, Nína Arnfinns 5, Ester Óskars skoraði 4, Ramune 4 og Nína Björns skoraði 1.
Hjá Stjörnuna var það Aline Petrace sem var markahæst með 13 mörk, Þorgerður Anna Atladóttir með 6, Kristín Clausen 4 og þær Elísabet Gunnarsdóttir og Harpa Sif Eyjólfsdóttir með tvö mörk hvor.