Það styttist í stórleik N1-deildar karla, Hafnarfjarðarslaginn sem fram fer á fimmtudaginn þegar Haukar taka á móti FH á Ásvöllum en leikurinn hefst klukkan 19:30. Forsala hefst á Ásvöllum á morgun, miðvikudag en miðaverð er 1000 kr. fyrir 16 ára og eldri en frítt er fyrir yngri en 16 ára. Forsala verður einnig í Flensborgarskólanum á morgun en þar mun miðinn vera seldur á 700 krónur.
Búist er við fullu húsi og miklu meira en það á fimmtudaginn og stemmingin að verða meiri og meiri fyrir þessum leik enda hafa þessi lið mæst tvisvar sinnum áður í vetur og bæði skiptin verið gríðarlegt fjör.
Við fengum Einar Örn Jónsson hægra hornamann Hauka í stutt spjall og spurðum hann út í leikinn og gengi Hauka bæði í deildinni svo í báðum leikjunum gegn FH fyrr í vetur.
Fyrsta spurningin var einföld, hvað hefur breyst frá því fyrir áramót þegar lítið sem ekkert gekk upp hjá Haukum og stigin voru ekki að skila sér og svo nú, en Haukar hafa sigrað síðustu sex deildarleiki í röð ?
Það sem helst hefur breyst hjá okkur er einbeitingin og viljinn til sigurs. Það kom yfir okkur eitthvert slen á löngum kafla í haust og við náðum ekki að „mótivera“ okkur sem skyldi nógu oft og þess vegna voru þessar sveiflur í okkar leik. Svo fórum við vel yfir okkar mál í pásunni og allur janúarmánuður var gríðarlega einbeittur og undirbúningurinn góður hjá okkur.
Þannig það mætti segja að Haukavélin svokallaða væri komin í gang ? – „Nú erum við heitir og hikstarnir úr sögunni,“ sagði Einar Örn.
En finnur Einar Örn fyrir pressu fyrir leiknum á fimmtudaginn ? – „Nei, það er engin sérstök pressa. Frekar tilhlökkun að ná í rassgatið á FH-ingum. Menn hefur klæjað í lófana frá síðasta leik við þá.“
En eins og flestir vita hafa FH-ingar sigrað báða leiki þessara liða í vetur, við spurðum Einar næst að því hvað hafi eiginlega farið úrskeiðis í leikjunum og hvort að leikmennirnir hafi reynt að gleyma þessum leikjum bara sem fyrst ? – „Það var kannski ekkert eitt sem fór úrskeiðis. Við vorum einfaldlega ekki nógu öflugir þá. Sýndum góða kafla í báðum leikjum en duttum niður á leikskólaplan þess á milli og það var ekki nóg gegn FH liði sem var á útopnu allan tímann. Við reyndum alls ekki að gleyma þessum leikjum og því sem fór úrskeiðis, heldur held ég að við höfum lært af þeim.“
Að lokum spurðum við hann hvort að allir leikmenn liðsins væri tilbúnir í leikinn ? – „Það eru flestir tilbúnir í leikinn, einhver smámeiðsli hér og þar eins og alltaf. Vonandi verður Arnar Pétursson klár í slaginn. Hann er búinn að lúskra vel á mönnum á æfingum síðasta daga til að hitna fyrir FH-ingana. Það er gott fyrir heilsu okkar hinna að hleypa honum frekar í FH-inga en okkur félagana,“ sagði Einar Örn brattur fyrir leikinn á fimmtudaginn en hann vonast eftir að Haukafólk fjölmenni á völlinn og styðji við bakið á Íslandsmeisturunum og liðinu sem situr á toppi N1-deildar karla.
Allir á völlinn – Áfram Haukar