Á morgun fara fram tveir leikir í 8-liða úrslitum Eimskipsbikar kvenna. En þá mætast FH og Fram og svo hinsvegar Fylkir og Haukar í Fylkishöllinni. Haukaleikurinn hefst klukkan 20:00.
Átta liða úrslitin hófust í kvöld með tveimur leikjum, Stjarnan sigraði Val og KA/Þór sem leikur í 1.deildinni gerðu sér lítið fyrir og sigruðu N1-deildarlið Gróttu með einu marki, 22-21 fyrir norðan og eru því komnar í undanúrslit.
En að aðalleiknum, Haukar og Fylkir hafa mæst tvisvar sinnum áður í vetur, bæði skiptin í deildinni, og hafa Haukar farið með sigur af hólmi í bæði skiptin. Í fyrri leiknum sigruðu Haukar 29-24 á Ásvöllum svo um miðjan desember sigruðu Haukar í miklum markaleik í Árbænum 39-30.
Fyrir leikinn ætti að búast við öruggum sigri Hauka enda eru þær á toppi deildarinnar með 23 stig en Fylkisstelpur neðstar með einungis þrjú stig. Fylkisstelpur fengu hinsvegar jafn mörg stig og Haukar í síðustu umferð, en Fylkisstelpur gerðu jafntefli gegn HK og Haukastelpur gerðu jafntefi gegn Fram.
Það má samt sem áður ekki vanmeta lið Fylkis en þær gerðu sér lítið fyrir og fóru alla leið í úrslitaleikinn í fyrra en töpuðu hinsvegar gegn Stjörnunni þegar í Höllina var komið.
Hvetjum Haukastelpurnar áfram á morgun en þær eru nú eina von okkar Haukamanna í bikarnum þetta árið. Eins og fyrr segir hefst leikurinn klukkan 20:00 á morgun í Fylkishöllinni í Árbæ.