Ofur miðherjinn Telma Fjalarsdóttir lék ekki með Haukaliðinu í 83-68 sigri gegn Grindavík sökum meiðsla. Telma lenti í samstuði við Hildi Sigurðardóttur í bikarleiknum gegn KR á dögunum og þurfti að yfirgefa völlinn. Við nánari athugun reyndist þetta vera trosnað liðband í hné og verður Telma því frá í einhvern tíma.
„Hildur hreinlega datt bara á mig” sagði Telma í samtali við haukar.is sem var nýkomin frá lækni. „Ég reyndi eitthvað að hlaupa eftir að ég var komin útaf en fann að það var eitthvað skrítið við þetta.”
„Ég fer í myndatöku og segulómun fljótlega til að athuga með liðþófan undir liðbandinu, hann gat ekkert séð hvort eitthvað væri að honum því hnéð er ennþá svo bólgið.”
Ljóst er að Telma verður frá í þó nokkurn tíma en talið er að þetta taki sex til átta vikur að jafna sig. „Þetta kemur betur í ljós þegar ég er búin í myndatökunni. Þetta er alveg ömurlegt” sagði Telma sem var ekki par ánægð með niðurstöður frá lækninum en fyrst var talið að þetta myndi taka tíu daga til þrjár vikur.
„Ég verð kem vonandi fersk inn í úrslitakeppnina og á meðan liðþófin er í lagi þá er ég sátt.”