Stjarnan – Haukar í kvöld í N1-deild karla

Síðasti leikur meistaraflokks karla í N1-deild karla fyrir jól fer fram í kvöld. Um er að ræða leik Stjörnunnar og Hauka en leikurinn hefst klukkan 19:30.

Þessi sömulið mættust í 1.umferð N1-deildarinnar og þar fóru Haukar með sigur af hólmi 28-21 eftir að hafa verið 15-11 yfir í hálfleik. 

Haukaliðið er sem stendur með 12 stig, með jafnmörg stig og Akureyri, FH og HK en þau hafa leikið einum leik meira en Haukar. Með Haukasigri í kvöld komast Haukar að hlið Fram með 14 stig í 2. og 3.sæti deildarinnar en Framarar leika á föstudaginn gegn Víking í síðasta leik N1-deildar karla þetta árið.

Stjörnumenn hafa ekki sigrað nema tvo leiki í deildinni í ár en eru samt sem áður með 6 stig, ástæðan er sú að þeir hafa einnig gert tvö jafntefli. Stjarnan hefur sigrað HK og Akureyri en gert jafntefli við Val og Víking. Það er því aldrei að vita hvað Stjarnan tekur upp á, í kvöld og því engin ástæða fyrir Hauka að vanmeta lið Stjörnunnar.

Í liði Stjörnunnar eru margir góðir handboltamenn, til að mynda Björgvin Hólmeirsson, Guðmundur Guðmundsson, Fannar Friðgeirsson og Fannar Þorbjörnsson sem kom heim úr atvinnumennsku fyrir þetta tímabil.

Við hvetjum alla til að fjölmenna í Mýrina í kvöld og hvetja strákana til sigurs enda um mikilvægan leik að ræða.