Um helgina verður nóg að gera hjá meistaraflokkunum hjá Haukum í handbolta. En á morgun, laugardag leikur meistaraflokkur kvenna gegn Gróttu í N1-deild kvenna á Seltjarnarnesi svo á sunnudaginn er bikarleikur hjá meistaraflokki karla en þá mætir liðið FH í Kaplakrika í RISASLAG.
Kvennaleikurinn er eins og fyrr segir á morgun og hefst klukkan 16:00 og leikið er á Seltjarnesi gegn Gróttu. Haukar eru sem stendur í efsta sæti deildarinnar með jafn mörg stig og Stjarnan, 14 talsins. Grótta er hinsvegar í næst neðsta sæti deildarinnar með einungis fjögur stig.
Það má hinsvegar ekkert vanmeta lið Gróttu því til að mynda töpuðu þær í síðustu umferð gegn FH einungis með einu marki. Fyrr í vetur þegar Haukar og Gróttu mættust á Ásvöllum sigruðu Haukar leikinn með þremur mörkum, 31-28 eftir að hafa verið 14-12 yfir í hálfleik. Með sigri á morgun getur liðið verið eitt á toppi deildarinnar þar sem Stjarnan mun ekki leika á morgun.
Á sunnudaginn verður svo Hafnarfjarðarslagur í Kaplakrika í 8-liða úrslitum í Eimskipsbikarnum. Leikur á milli 1.deildar meistara síðasta árs og Íslandsmeistarana en sá leikur hefst klukkan 15:30, síðast var kofinn troðfullur og sá leikur verður lengi í mannaminnum enda alltof sjaldan sem svona mikil stemming myndast á einum handboltaleik. Leikurinn á sunnudaginn verður sýndur í beinni á RÚV en það ætti ekki að stoppa neinn handboltaáhugamann og hvað þá Hafnfirðing enda klárlega skemmtilegustu leikir vetrarins, leikirnir milli Hauka og FH.
Það verður mikið um dýrðir á Ásvöllum fyrir leikinn en dagskráin hefst klukkan 14:00 á Ásvöllum þar sem boðið verður upp á andlitsmálingu fyrir börn og því um líkt. Ferjað verður svo allt fólkið frá Ásvöllum um klukkan 14:30 frítt en þetta er afar góður kostur enda bílastæðin í takmörkuðum skammti í Kaplakrika. Eftir leikinn verður svo að sjálfsögðu einnig ferjað fólkið til baka (vonandi alsæl og fagnandi).
Forsala er hafin en hægt er að nálgast miða á Ásvöllum en miðaverð er 1000 kr. fyrir fullorðna en frítt er fyrir 16 ára og yngri. Það skal tekið fram að þar sem um bikarleik er að ræða skiptist aðgöngueyri 50/50 til hvors liðs. Nú þegar er búið að selja töluvert af miðum og því um að gera að kaupa sér miða fyrir sig og alla fjölskylduna sem fyrst enda algjör drauma fjölskylduskemmtun.
Það er um að gera fyrir fólk að mæta tímanlega í Kaplakrikann á sunnudaginn en til að mynda mun Einar Ágúst söngvari Skítamórals hita upp fyrir leikinn svo verður spanderað í þvílíku Ljósa-showi að hætti Fimleikafélagsins, gríðarlega spennandi það.
Staðan er 1-0 fyrir FH í viðureignum liðanna á þessu tímabili og nú fá Haukar tækifæri til að jafna metin sem þeir ætla sér svo sannarlega. Mætum í Kaplakrikann og sjáum Íslandsmeistarana mæta liði FH.
Mætum á báða leikina og um helgina og styðjum okkar lið til sigurs.
N1-deild kvenna: Grótta – Haukar, laugardag 6.des klukkan 16:00 – Seltjarnarnesi
Eimskipsbikar karla: FH – Haukar, sunnudag 7.des klukkan 15:30 – Kaplakriki