Aðeins einn FH sigur á tíu árum

Haukar Íslandsmeistarar 2008Á miðvikudaginn mætast Hafnarfjarðarliðin FH og Haukar í N1 deild karla. Leikurinn fer fram í Kaplakrika og má búast við fjölmörgum áhorfendum. Fyrir leikinn er lið FH á toppi deildarinnar með 8 stig en Haukar eru í 6. sæti með 6 stig. Haukar geta því með sigri í leiknum komist upp fyrir FHinga þar sem innbyrðis viðureignir gilda. Við ákváðum að kíkja á úrslita leikja Hauka og FH síðustu 10 árin, eða frá tímabilinu 1998 – 1999. Þar hafa Haukar haft betur í öllum leikjum nema tveimur, einn leikur hefur endað með sigri FHinga og einn með jafntefli. Haukar hafa öll árin endað ofar en FH í deildinni og hafa leikið í efstu deild öll árin á meðan FH lék í 1. deild þrjú tímabil, 2004 – 2005, 2006 – 2007 og 2007 – 2008.

Við vekjum athygli á því að einhverja leiki vantar í upptalninguna þar sem langflestar bikarkeppnir vantar inn á heimasíðu HSÍ. 


Tímabilið 1998 – 1999

Liðin mættust fyrst þann 11. október í Kaplakrika. Haukar höfðu sigur þar 29 – 23. Síðari leikur liðanna var svo á Strandgötunni þann 17. janúar og sigruðu Haukar aftur þar með þremur mörkum, nú 26 – 23.

Þetta tímabil höfnuðu Haukamenn í fjórða sæti Nissan-deildarinnar en FHingar í því sjöunda.

Engar upplýsingar fundust á heimasíðu HSÍ um SS bikarinn.

 

Tímabilið 1999 – 2000 

Liðin mættust fyrst þann 12. október í Kaplakrika og lauk þeim leik með jafntefli, 20-20. Haukar unnu svo enn einu sinni þriggja marka sigur á Strandgötunni þann 12. febrúar, 28 – 25. 

Eins og árið áður höfnuðu Haukamenn í fjórða sæti deildarinnar en FHingar í því sjöunda. Haukar urðu svo Íslandsmeistarar eftir sigur gegn Fram í úrslitaviðureign, 3-1.

Engar upplýsingar fundust á heimasíðu HSÍ um SS bikarinn.

 

Tímabilið 2000 – 2001 

Fyrri leikur liðanna fór fram á Ásvöllum, nýju og glæsilegu íþróttahúsi Haukamanna, þann 11. október 2000. Haukar sigruðu í leiknum 28 – 23. Síðari leikurinn fór fram þann 21. febrúar í Kaplakrika og sigruðu Haukamenn að nýju 25 – 19.

Haukar höfnuðu í öðru sæti deildarinnar og FH í því sjötta. Liðin mættust því í 8 liða úrslitum úrslitakeppninnar og sigruðu Haukamenn fyrri leikinn á Ásvöllum þann 6. apríl, 32 – 31 og þann síðari í Kaplakrika 8. apríl, 28 – 22.  

Engar upplýsingar fundust á heimasíðu HSÍ um SS bikarinn.

 

Tímabilið 2001 – 2002

Liðin mættust tvisvar sinnum í Essó deildinni þetta árið. Báðir leikirnir fóru fram í mars, sá fyrri 3. mars í Kaplakrika og sá síðari 27. mars á Ásvöllum. Haukamenn sigruðu báða leikina, þann fyrri 27 – 26 og síðari leikinn 25 – 23.

Haukar urðu deildarmeistarar þetta árið en FH hafnaði í áttunda sæti. Liðin mættust því í 8 liða úrslitum og sigruðu Haukar þar tvo leiki, fyrst 26 – 27 á Ásvöllum 17. apríl og síðan í Kaplakrika 28 – 23 tveimur dögum síðar.

Engar upplýsingar sem fyrr um SS bikarinn á heimasíðu HSÍ.

 

Tímabilið 2002 – 2003

Eins og áður leiku liðin tvisvar í Essó deildinni þetta árið. Fyrri leikurinn, á Ásvöllum 4. desember 2002, endaði með Haukasigri 27 – 19. Síðari leikurinn sem var leikinn í Kaplakrika 9. mars 2003 endaði einnig með Haukasigri, nú 33 – 27.

Haukar höfnuðu í fyrsta sæti deildarinnar og FH í því sjöunda. 

Engar upplýsingar eru á heimasíðu HSÍ um SS bikarinn.

 

Tímabilið 2003 – 2004

Liðin léku bæði í REMAX deild suður. Fyrri leikur liðanna var leikinn í Kaplakrika 4. október 2003 og síðari leikurinn á Ásvöllum 10. desember. Haukar sigruðu báða leikina, þann fyrri 24 – 23 og þann síðari 32 – 29.

Haukar höfnuðu í öðru sæti suðurriðilsins en FH í því fimmta. FH lék því í 1. deild eftir áramótin á meðan Haukar léku í úrvalsdeild.

Liðin mættust í 8 liða úrslitum en ekkert er um leikina á heimasíðu HSÍ. Haukar sigruðu þó báða leikina.

 

Tímabilið 2004 – 2005 

Þann 20. september 2004 mættust liðin í Kaplakrika í DHL deild norður. Haukar fóru með sigur af hólmi, 34 – 26. Síðari leikur liðanna fór fram 10. nóvember á Ásvöllum og sigruðu FHingar, sinn eina leik á móti Haukum síðastliðin 10 ár, þegar þeir fóru með sigur af hólmi, 29 – 28.

Haukar sigruðu suðurriðilinn á meðan FH hafnaði í sjötta sæti. Haukar léku því eins og árið áður í úrvalsdeild á meðan FH lék í 1. deild.

Liðin mættust svo aftur í 8 liða úrslitum. Þar fóru Haukamenn með sigur af hólmi í báðum leikjunum, fyrst 29 – 22 þann 5. apríl 2005 á Ásvöllum og síðan tveimur dögum síðar í Kaplakrika, 34 – 30.

 

Tímabilið 2005 – 2006 

Þetta tímabil var aðeins leiki í einni 14 liða deild, DHL deildinni. Leikin var tvöföld umferð og því mættust liðin sem fyrr tvisvar sinnum í deildinni. Fyrri leikurinn fór fram á Ásvöllum 11. desember og sigruðu Haukar þar með 10 mörkum, 31 – 21. Þann 29. apríl mættust liðin svo að nýju í Kaplakrika og enn einn Haukasigurinn leit dagsins ljós þegar Haukar sigruðu 32 – 28.

Haukar höfnuðu í öðru sæti deildarinnar en FH í því níunda. Engin úrslitakeppni var þetta árið.

 

Tímabilið 2006 – 2007 

Út frá úrslitum DHL deildarinnar árið áður var skipt í tvær deildir, úrvalsdeild og 1. deild. Sjö efstu liðin fóru í úrvalsdeild og sjö neðstu liðin í 1. deild. Haukar léku því í úrvalsdeild á meðan FH lék í 1. deild og mættust liðin því ekki í hefðbundnum deildarleikjum. 

Liðin mættust hins vegar í 8 liða úrslitum SS bikarsins þar sem Haukamenn fóru með sigur af hólmi 38 – 33. 

Haukar höfnuðu í 6. sæti úrvalsdeildarinnar og FH í 4. sæti 1. deildarinnar.

 

Tímabilið 2007 – 2008

Eins og árið áður léku Haukar í úrvalsdeild á meðan FH lék í 1. deild. Liðin mættust ekkert á tímabilinu. Haukar sigruðu úrvalsdeildina og FH sigraði 1. deildina.

Þetta var í fyrsta skipti í manna minnum sem liðin mættust ekki.