Haukasigur í Vodafone-höllinni

Nína Kristín BjörnsdóttirÍ dag tóku Valstelpur á móti Haukastelpum í N1 deild kvenna. Fyrir leikinn voru liðin jöfn í 2. og 3. sæti með 6 stig eftir 4 leiki. Á toppi deildarinnar sat svo Stjarnan með 10 stig eftir 5 leiki. Það var því ljóst að sigurlið leiksins myndi minnka forskot Stjörnunnar niður í tvö stig. 

Leikurinn var ekki mikið augnakonfekt og mætti segja að hann hafi einkennst af mistökum í sóknarleik beggja liða. Valstelpur vori betri fram í miðjan síðari hálfleik en þá tók við góður kafli Haukastelpna sem sigruðu að lokum 24 – 22.

Valstelpur byrjuðu leikinn mun betur og skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins. Þegar 7 mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 2-0 Val í vil. Ekki er hægt að segja að mörkunum hafi rignt inn eftir það en liðin skiptust á að skora og höfðu Valstelpur tveggja til þriggja marka forskot alveg fram í miðjan síðari hálfleik. 

Um miðjan síðari hálfleik kom góður kafli Haukastelpna þar sem þær minnkuðu muninn í eitt mark og náðu svo að jafna. Þær komust svo yfir undir lok leiksins og náðu að vera skrefinu á undan út leikinn. Að lokum fór svo að þær sigruðu með tveimur mörkum, 24 – 22, eins og áður segir.

Með sigrinum í dag komust Haukastelpur einar í annað sæti deildarinnar þar sem þeir eru með 8 stig. Stjörnustelpur eru sem fyrr segir efstar með 10 stig eftir fimm umferðir. Næsti leikur Haukastúlkna verður svo gegn Fram á heimavelli á laugardaginn eftir viku, 1. nóvember. Framstelpur eru í 5. sæti deildarinnar með 4 stig eftir góðan sigur á FH í dag.