Haukar tóku á móti Snæfellingum í gærkvöldi í Iceland Express-deild kvenna að Ásvöllum.
Fyrirfram mátti búast við auðveldum sigri Hauka en annað kom á daginn og sýndu Snæfellsstúlkur að það er mikið spunnið í þetta lið.
Lokatölur leiksins voru 80-63 og gefa lokatölur leiksins ekki alveg rétt mynd af leiknum.
Haukar voru sterkari aðilinn allan leikinn og höfðu forystuna nánast frá upphafi. Þær leiddu oftast með 6-10 stigum og náðu aldrei að hrista Snæfell af sér.
Undir lok leiksins keyrðu Haukar upp muninn og unnu að lokum 17 stiga sigur 80-63.
Leikurinn gefur góð fyrirheit fyrir tímabilið. Haukaliðið lenti í smá vandræðum en gaf samt aldrei færi á sér og vann góðan sigur.
Stigahæst hjá Haukum var Slavica Dimovska með 25 stig og 12 stoðsendingar. Kristrún Sigurjónsdóttir var með 20 stig.
Mynd: Slavica Dimovska var stigahæst Haukakvenna í gær og stjórnaði leik liðsins af krafti – stefan@haukar.is