Haukar – Veszprém á morgun – leikir liðanna hingað til

Meistaradeild Evrópur 2008/2009Á morgun fer fram síðasti leikurinn í fyrri umferð F riðils Meistaradeildar Evrópu. Þá taka Haukamenn á móti liðið Veszprém frá Ungverjalandi á Ásvöllum en leikurinn hefst klukkan 16:00. Veszprém er eins og er í öðru sæti riðilsins en á leik til góða á Flensburg sem er í toppsætinu en Haukar eru í þriðja sæti.

Í fyrstu umferð riðilsins tóku Haukar á móti liði ZTR Zaporozhye frá Úkraníu. Leikurinn fór fram, eins og allir heimaleikir Hauka, á Ásvöllum sunnudaginn 5. október. Áhorfendur á leiknum voru 700 manns, tala sem við ætlum að hafa hærri á leiknum núna á sunnudaginn. Haukar sigruðu leikinn með einu marki eftir hörkuleik, 26 -25. Freyr Brynjarsson og Sigurbergur Sveinsson voru markahæstir í liði Hauka með 4 mörk hvor, Elías Már Halldórsson, Kári Kristján Kristjánsson og Gísli Jón Þórisson skoruðu 3 mörk hver. Markahæstur í liði ZTR Zaoporozhye var Sergiy Onufryienko með 10 mörk. Sergiy Burka skoraði 7.

Á sama tíma fór fram stórleikur riðilsins. En þá tóku leikmenn Veszprém á móti liði Flensburgar í Ungverjalandi. Áhorfendur á þeim leik voru 5.000 talsins, mun fleiri en við Íslendingar erum vanir. Veszprém vann leikinn eftir hörku leik, 29 – 28. Markahæstur í liði Veszprém var Serbinn Marko Vujin með 9 mörk en næstur kom Rúmeníumaðurinn Marian Cozma með 4 mörk. Markahæstur í liði Flensburgar var Daninn Lars Christiansen með 9 mörk.

Næsti leikur riðilsins var leikur Flensburgar og Hauka. Hann fór fram í Flensburg fimmtudaginn 9. október. Áhorfendur á leiknum voru 6.100 talsins og mikil stemning í höllinni. Á milli 40 og 50 Haukamenn voru á pöllunum og hvöttu sitt lið til dáða. Svo fór að lokum að Flensburg sigraði 35 – 29 en þær tölur voru alls ekki í samræmi við leikinn í heild. Haukar voru yfir stærstan hluta fyrri hálfleiks og voru síður lakara liðið. Markahæstur í liði Hauka var Kári Kristján Kristjánsson með 7 mörk en næstur kom Andri Stefan með 6 mörk. Markahæstir í liði Flensburgar voru Lars Christiansen og Alen Muratovic með 8 mörk hvor.

Veszprém heimsóttu lið ZTR Zaporozhye laugardaginn 11. október. Áhorfendur í Úkraníu voru 2.500. Veszprém sigraði 32 – 25 og var markahæstur í liði þeirra Marko Vujin með 10 mörk. Hann hefur því skorað 19 mörk í leikjunum tveimur sem lokið er. Næstur á eftir honum kom Gyula Gal með 7 mörk. Markahæstur í liði ZTR Zaporozhye var Sergiy Burka með 7 mörk.

Fyrri leikur þriðju umferðar riðilsins hefur farið fram. Flensburg tók á móti liði ZTR Zaporozhy á fimmtudaginn og sigruðu heimamenn nokkuð örugglega 38 – 20. Áhorfendur á leiknum voru 6.100. Markahæstur í liði Flensburgar var enn og aftur Lars Christiansen með 9 mörk. Hann hefur því skorað 26 mörk í leikjunum þremur sem er nokkuð gott. Markahæstur í liði Zaporozhye var svo Sergiy Burka með 8 mörk, samtals kominn með 22 mörk í keppninni.

Samkvæmt heimasíðu EHF, www.eurohandball.com, er Flensburg efst í riðlinum með 4 stig. Veszprém er einnig með fjögur stig en óhagstæðara markahlutfall og er því 2. sætið þeirra. Haukamenn eru í þriðja sæti með 2 stig og á botninum er lið ZTR Zaporozhye án stiga.

Fyrirfram má búast við sigri Veszprém á morgun en við megum ekki gleyma því að úrslitin í handbolta eru aldrei ráðin fyrr en að leik loknum. Ef kraftaverkin gerast á morgun og Haukamenn sigra eiga þeir möguleika á því að vera efstir í riðlinum eftir fyrri umferðina. Ekki væri það leiðinlegt.

Eins og áður hefur komið fram hefst leikurinn klukkan 16:00 á Ásvöllum á morgun. Miðaverð er 1.000 krónur fyrir fullorðna og frítt fyrir yngri en 16 ára. Að sjálfsögðu fá öryrkjar og ellilífeyrisþegar frítt á alla handboltaleiki á Ásvöllum og verður engin breyting þar á.

Við hvetjum fólk til að fjölmenna á leikinn og styðja Haukana í báráttunni í F riðli Meistaradeildarinnar.