Haukar – Vezprém á sunnudaginn

Á sunnudaginn mætir meistaraflokkur karla liði MKB Veszprém KC frá Ungverjalandi. Þetta er þriðji leikur Hauka í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 16:00.

Fyrir leikinn eru Haukar með 2 stig en MKB Veszprém KC með 4 stig.

Við fengum þrjá leikmenn meistaraflokks til að segja sína skoðun á komandi leik.

 Við fengum þá Elías Má Halldórsson, Arnar Jón Agnarsson og Frey Brynjarsson leikmenn meistaraflokks til að tjá sig um það hver möguleiki Hauka sé til að ná eitthverju útúr leiknum á sunnudaginn og hvernig liðið er stemmt fyrir leiknum.

Elías Már Halldórsson: „Við vitum vel að leikurinn á sunnudaginn verður gríðarlega erfiður og mjög krefjandi. Við sáum það vel í Flensburg að við getum alveg unnið þessi stóru lið ef allt gengur upp og heppnin er með okkur. Við erum staðráðnir í því að gefa allt í þetta á sunnudaginn og vonandi náum við að fylla Ásvelli og þá er aldrei að vita hvað gerist. Ég hvet því alla til að mæta á völlinn á sunnudaginn og láta í sér heyra áfram Haukar!!

Arnar Jón Agnarsson: Við komum gríðarvel stemmdir í leikinn, enda þurfum við virkilega að sýna fólki hvað í okkur býr eftir þennan viðbjóðslega hörmungarleik gegn Val á miðvikudaginn. Vezprém er auðvitað gríðarlega sterkt lið en við munum reyna allt sem við getum til þess að ná stig eða stigum.“

Freyr Brynjarsson: Það er bara tilhlökkun að mæta þessu stórliði frá Ungverjalandi. Svo þurfum við líka að bæta fyrir síðasta leik í deildinni. Vona að sem flestir mæti og sjái okkur mæta liði sem fer mjög líklega alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar.

Við tökum undir þau orð strákana og vonum að fólk sjái sér fært að fjölmenna á völlinn á sunnudaginn og hvetja strákana áfram í baráttunni.

Frítt er á leikinn fyrir 16 ára og yngri en 1.000 krónur fyrir aðra. Að sjálfsögðu er svo frítt fyrir aldraða og öryrkja eins og á ALLA leiki meistaraflokka Hauka í handbolta.