Haukar – MKB Veszprém KC á sunnudag

Meistaradeild Evrópu 2008 - 2009Á sunnudaginn fer þriðji leikur Haukamanna í Meistaradeild Evrópu. Um er að ræða annan heimaleik liðsins en nú taka þeir á móti stórliði MKB Veszprém KC frá Ungverjalandi. Leikurinn hefst klukkan 16:00 á Ásvöllum og við hvetjum fólk til að fjölmenna á leikinn.

En hverjir eru MKB Veszprém KC?

Liðið hefur sigrað ungversku deildina 16 sinnum og á síðustu átta árum hafa þeir unnið titilinn 7 sinnum. Í fyrra sigruðu þeir ekki deildina en urðu bikarmeistarar.

Liðið er mjög hávaxið en 11 af 18 leikmönnum liðsins eru yfir 195 cm á hæð. Þar af eru 5 leikmenn 2 metrar eða hærri. Hæsti leikmaður liðsins er línumaðurinn Marian Cozma en hann er 210 cm á hæð. Meðalaldur liðsins er 24 ár.

Lið Veszprém mætti Völsurum í Meistaradeildinni í fyrr en þeir unnu fyrri leikinn 41-28 á heimavelli og síðari leikinn 31-24 í Vodafone höllinni.

Liðið hefur yfir mikilli breidd að ráða og geta leikmenn stígið upp til skiptis hjá þeim. Ef að hægt er að draga einhverja út hjá þeim mætti segja að þeirra helstu stjörnur séu markvörðurinn Dejan Peric, hægri skyttan Marko Vujin og línumaðurinn Gyuala Gal.

Peric er Serbi og talinn einn af allra bestu marmönnum í heiminum í dag. Peric er fyrirliði liðsins og lék áður með Barcelona.

Vujin er öflug skytta og er einnig þeirra markahæsti maður í Meistaradeildinni með 19 mörk í tveimur leikjum.

Ungverjinn Gal er mikill bolti og er mjög erfitt að eiga við hann á línunni enda er hann 194 cm og 129 kg.

Í fyrsta leik Meistaradeildarinnar unnu þeir Flensburg með einu marki, 29-28, í Ungverjalandi. Í öðru leik keppninnar unnu þeir svo ZTR Zaporozhye á útivelli 32-25.