Unglingaflokkur: Sigur í fyrsta leik

Unglingaflokkur karla lék sinn fyrsta leik á tímabilinu nú fyrr í kvöld þegar þeir tóku á móti liði Fjölnis úr Grafarvogi.

Leikurinn var í járnum allt frá fyrstu mínútu og var alveg ljóst að sigurinn gat dottið báðu meginn við borðið en á endanum voru það Haukastrákar sem uppskáru góðan 5 stiga sigur, 71-66.

Vörn Hauka var oft á tíðum virkilega sterk og fundu gestirnir fá svör á köflum. Haukar náðu ekki að nýta sér sterkan varnarleik til fullnustu og var það oft á tíðum sem að leikmenn gerðu sig seka um klaufaleg mistök og illa útfærðar sendingar rötuðu yfirleitt í hendurnar á Fjölnisstrákum.

Mynd: Helgi Einarsson var stigahæstur Haukastráka – Arnar Freyr Magnússon

Fjölnir leiddi í hálfleik með sex stigum 27-33 og eftir þriðja leikhluta leiddu þeir með sjö stigum, 43-50.

Haukar settu allt í botn í fjórða leikhluta og eftir aðeins 3 mín voru þeir búnir að jafna leikinn. Haukar komust yfir, 55-52, en Fjölnir svaraði fljótt. Liðin skiptust á að skora körfur og komust Fjölnismenn yfir 63-66 þegar skammt var til leiksloka. Með góðum körfum frá Arnari Hólm og Helga Einarssyni tryggðu Haukar sér sinn fyrsta sigur í unglingaflokki.

Helgi Einarsson var stigahæstur með 24 stig, Arnar Hólm og Gunnar Magnússon skoruðu 11 hvor, Emil Barja, Kristinn Kristinsson og Kristinn Marinósson voru með 6, Birkir Pálmason var með 5 og Haukur Óskarsson var með 2 stig.

Hjá Fjölni var Valur Sigurðsson stigahæstur með 20 stig og Hörður Lárusson var með 14.

Næsti leikur liðsins er gegn KFÍ á Ásvöllum 25. október.