Ekki í fyrsta sinn sem Haukar mæta þýsku liði

Meistaradeild Evrópu 2008/2009Strákarnir í meistaraflokki karla eru nú staddir í Þýskalandi þar sem þeir mæta liði Flensburgar í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18:00 að íslenskum tíma, 20:00 að þýskum tíma, og verður leikurinn sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Eurosport 2. Einnig munum við fylgjast með leiknum hér á www.haukar.is en við þar sem tæknin í dag er hreint mögnuð munum við geta sett inn tölur leiksins og smá punkta mjög reglulega.

Stór hópur Haukamanna eru í Þýskalandi að fylgjast með leiknum og hvetja sína menn. 

En þetta er ekki í fyrsta skipti sem Haukar mæta þýsku liði í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Í þau fjögur skipti sem liðið hefur verið í riðlakeppninni hefur liðið þrisvar sinnum verið í riðli með þýsku liði. 

Tímabilið 2003/2004 var í fyrsta sinn sem Haukar voru með í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það árið fékk liðið ekki beint létta mótherja, en mótherjarnir voru stórliðin FC Barcelona frá Spáni og SC Magdeburg frá Þýskalandi auk þess sem lið Vardar Vatrost Skopje var í riðlinum. Hið þýska lið SC Magdeburg, sem var undir stjórn Alfreðs Gíslasonar og með Sigfús Sigurðsson innanborðs, þurfti heldur betur að hafa fyrir hlutunum á Ásvöllum en þeir sigruðu að lokum 37 – 34. Á útivelli töpuðu Haukar hins vegar 34 – 26.

Tímabilið 2004/2005 voru Haukar svo aftur mættir í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Þá var þýska liðið THW Kiel með liðinu í riðli. Einnig var sænska liðið SK Sävehof, sem er frá smábænum Partille sem margir þekkja frá einu vinsælasta handboltamóti erlendis fyrir unglinga Partille Cup, og US Creteil handball frá Frakklandi í riðlinum.  Haukar mættu liði TWH Kiel í annarri umferð í Þýskalandi og tapaði 39 – 23. Síðari leikurinn fór fram á Ásvöllum og töpuðu Haukastrákar þá 28 – 35. 

Tímabilið 2005/2006 léku svo strákarnir í þriðja sinn í Meistaradeildinni en þá í riðli með engu þýsku liði. Í riðlinum voru lið Torggler Group Meran frá Ítalíu, Århus GF frá Danmörku og RK Gorenja Valenje frá Slóveníu.

Nú eru mótherjar Hauka lið SG Flensburg-Handewitt, ZTR Zaporozhye frá Úkraníu og lið MKB Veszprém KC frá Ungverjalandi.

En eins og áður segir hefst leikurinn gegn Flensburg í kvöld klukkan 18:00 að íslenskum tíma og verður í beinni lýsingu hér á heimasíðunni og einnig á Eurosport 2. Sendum strákunum sterka strauma og vonum að þeir nái sem bestum úrslitum.