Hvað segja leikmenn Hauka ? Flensburg á fimmtudaginn

Á fimmtudaginn nætkomandi heimsækir meistaraflokkur Hauka í handknattleik stórlið Flensburgar frá Þýskalandi. En leikurinn er liður í 2. umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Haukar sigruðu fyrsta leikinn sinn í riðlinum með einu marki en Flensburg töpuðu hinsvegar fyrsta leiknum sínum í riðlinum gegn Vezprém 29-28.

Fjölmargir Haukamenn ætla að leggja land undir fót og styðja Hauka strákana áfram á fimmtudaginn. Ítarleg umfjöllun um lið Flensburg mun birtast hér á síðunni á morgun.

En í dag ætlum við hinsvegar að fá að vita hvað nokkrir leikmenn Hauka segja um leikinn á fimmtudaginn og hvernig hann leggst í þá.

 

Um er að ræða þá leikmenn, Frey Brynjarsson, Kára Kristján Kristjánsson, Hafstein Ingason, Elías Má Halldórsson, Gísla Jón Þórisson, Einar Örn Jónsson og Arnar Jón Agnarsson.

 

Freyr Brynjarsson: Mig hlakkar mikið til að mæta þessu sterka þýska liði og leikurinn sjálfur leggst bara ágætlega í mig þó svo að það verði ramm við reipi að draga. Við komum til með að gefa okkur alla í þennan leik. Það er bara skilda okkar að sýna okkar bestu hliðar þar sem við fáum fjöldann allan af stuðningsmönnum með okkur.

Kári Kristján Kristjánsson: Þetta verður klárlega stærsti leikur með félagsliði sem ég hef tekið þátt í og vonandi á hann eftir að uppfylla allt sem ég hef ýmindað mér að spila gegn stórliði. Það er mikil eftirvæntin.

Gísli Jón Þórisson: Leikurinn gegn Flensburg verður frábært ævintýri fyrir okkur. Að spila gegna svona öflugum og stórum klúbb er frábært, erfitt en frábært. Við munum að sjálfsögðu leggja okkur alla fram við að ná góðum úrslitum og gefa allt okkar í þennann leik.

Einar Örn Jónsson: Leikurinn í Flensburg verður fyrst og fremst góð reynsla og ævintýri.  Það er nánast alltaf uppselt í Flensburg (6500 manns) og mikill hávaði og stemmning.  Það er mikil áskorun að glíma við heimsklassa leikmenn í þannig umhverfi og við munum selja okkur dýrt og skemmta okkur og fólkinu sem fylgir okkur út.  Það er klárlega hægt að vinna þetta lið því þeir töpuðu til að mynda fyrir pólsku liði á heimavelli í Meistaradeildinni í fyrra og svo unnum við í Minden þá í Flensburg í lokaleiknum í deildinni í vor (það er gott að minna Birki Ívar reglulega á þau úrslit en við björguðum okkur frá falli á kostnað Birkis og Þóris Ólafs í Lübbecke með sigrinum!!).

Arnar Jón Agnarsson: Mjög vel, gaman að fara í mekka handboltans og keppa við eitt besta handboltalið í heimi, það á ekki að vera mikið mál að mótivera sig fyrir þann leik, ég spái að við tökum eitt stig.

Hafsteinn Ingason: Getur ekki annað en lagst vel í okkur enda erum við að fara mæta einu af bestu liðum heims og flottum heimavelli þeirra. Það verður bara upplifun.

Elías Már Halldórsson: Ferðinn til flensburgar leggst bara glimrandi vel í okkur þetta er hörkulið sem verður virkilega gamann að berjast við, við ætlum að láta finna virkilega fyrir okkur og vonandi náum við hagstæðum úrslitum á þessum erfiða útivelli!!! Og ekki skemmir fyrir að hafa slatta af Hauka fólki með í för.

Við óskum strákunum góða ferð og vonum að þeir nái að sýna sitt besta á einum erfiðasta heimavelli í heimi.