8. flokkur karla spilaði um síðustu helgi á fjölliðamóti og það í B-riðli. Leikið var í Seljaskóla og var markmið drengjanna að fara aftur upp í A-riðil en þaðan féllu þeir eftir fyrsta mót með einn sigur og tap eftir framlengingu.
Fyrsti leikur var á móti Stjörnunni. Strákarnir byrjuðu ágætlega og var Kári Jónsson að skora mikið en aðrir voru ragir og þorðu ekki að taka af skarið. Haukar leiddu allan fyrri hálfleikinn og voru 8 stigum yfir í hálfleik.
Í þriðja leikhluta náðu Stjörnumenn að minnka muninn og náðu að jafna í fjórða leikhluta og þurfti að framlengja. Stjörnumenn náðu yfirhöndinni en Haukar náðu svo að jafna og því þurfti að framlengja í annað sinn. Haukastrákar náðu að klára leikinn og ljóst var eftir þennan leik að við vorum ekki upp á okkar besta bæði í vörn og sókn
Annar leikur var á móti Tindastól og þá komu strákarnir mun betur stemmdir til leiks og vannst öruggur 20 stiga sigur þar sem allir voru að leggja eitthvað af mörkum.
Fyrsti leikur á sunnudeginum var gegn heimamönnum í ÍR sem voru búnir að tapa bæði á móti Stjörnunni og Tindastól. Kári var hvíldur alveg í öðrum og fjórða leikhluta og átti það að vera til þess að aðrir færu að taka við keflinu og gera meira en því miður þá voru strákarnir ekki að leggja sig nógu mikið fram bæði í vörn og sókn. Haukar unnu samt leikinn með fimm stiga mun en ljóst að þeir þyrftu mikið að laga til þess að vinna úrslitaleikinn gegn Njarðvík.
Síðasti leikurinn var gegn Njarðvík og var jafnframt úrslitaleikur um hvort liðið færi upp. Njarðvík byrjaði strax á því að taka Kára úr leiknum og lent Haukaliðið í miklum vandræðum í þessum leik. Njarðvíkingar voru að spila harðan varnarleik og Haukastrákar að bakka frá þeim og byrjuðu að væla, sem hefur aldrei reynst árangursrík aðferð. Kári faldi sig og aðrir stigu ekki upp og tap staðreynd með 20 stigum og Haukar því áfram í B riðli
„Það er margt sem þarf að laga og ljóst að það verða fleiri að koma inn hjá okkur og leggja meira af mörkum. Lykilmenn voru alveg týndir þessa helgi og það þarf að laga. Við þurfum líka að laga baráttu og menn þurfa að fara að leggja sig meira fram, bæði í vörn og sókn“ sagði Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka eftir helgina.
Strákarnir voru svekktir í lokin og eru staðráðnir í því að komast í A riðil fyrir úrslitin og allir ætla að leggja meira af mörkum.