Boltafélag Ísafjarðar reyndist ekki mikil fyrirstaða fyrir Haukana sem unnu mjög öruggan og auðveldan sigur 7-0, í annarri umferð Deildarbikarkeppninnar.
Það var ljóst strax í byrjun í hvað stefndi. BÍ, sem spilaði leik deginum áður gegn Gróttu og tapaði 2-1, virtist beita einhverjum vísi af hinu sjaldséða 6-3-1 leikkerfi. Langar sendingar fram á við án heimilisfangs voru einu sóknartilburðir Ísfirðinga og ætla má að Haukar hafi haft boltann um 75 % af leiknum. Mörkin hefðu getað orðið töluvert fleiri, en bágborin skotnýting Haukamanna kom í veg fyrir það. Þessi 7-0 sigur má því heita vel sanngjarn.
Salih Heimir Porcha, þjálfari Meistarflokks kvenna, stýrði Haukaliðinu í fjærveru Daða Dervic sem er staddur erlendis. Liðinu var stillt upp í 4-4-2 leikkerfi á eftirfarandi hátt:
Kiddi
Davíð J. – Pétur – Davíð E. – Vignir
Betim – Kristján Ó. – Hermann – Birgir R.
Ómar K. – Hilmar E.
Á bekknum voru Þorri, Arnar Steinn, Bjarki J. og Kristófer. Hilmar Trausti boðaði forföll á síðustu stundu vegna bakmeiðsla sem hann hlaut á æfingu á föstudaginn auk þess sem Óli Jón og Hilmar Geir hvíldu vegna smávægilegra meiðsla. Þá var Danni í banni vegna rauðs spjalds í leiknum gegn ÍR.
Haukar blésu um leið til blússandi sóknar og strax á 4. mínútu skoraði Hilmar E. með skalla eftir góða fyrirgjöf frá Bigga, sem hugsanlega setti íslandsmet í fjölda fyrirgjafa í einum og sama leiknum. Sex mínútum síðar endaði mjög svipuð sókn aftur með skalla Hilmars E. en í þetta skiptið var bjargað á línu.
Haukar sóttu nær linnulaust allan hálfleikinn og voru kantarnir nýttir vel, sem var dagskipun þjálfarans til leikmannanna fyrir leikinn. Á 15. mínútu átti Birgir R. ósvikið þrumuskot af cirka 20 metra færi, sem markvörður BÍ náði að ýta í stöngina svo að söng í.
Hausinn á Hilmari E. var svo sannarlega í lagi í dag, en á 27. mínútu skoraði hann aftur með skalla eftir fyrirgjöf frá Betim. Betim, sem var mjög sprækur í leiknum og var mikil ógn á hægri kantinum, var aftur á ferðinni aðeins mínútu seinna með frábært mark eftir margfalt þríhyrningaspil við Ómar K. og Hilmar E. Betim bætti svo við sínu öðru marki á 38. mínútu þegar Hilmar E. sendi fyrirgjöf frá vinstri og Betim var mættur á fjærstöngina og með miklu harðfylgi kom boltanum í netið. Betim sýndi mikla karlmennsku þegar hann í leiðinni ákvað að reyna skriðtækla markstöngin, sem stóð þó af sér þá tæklingu og í staðinn fékk Betim að haltra fagnandi heim.
Staðan var því 4-0 í hálfleik og fátt sem benti til að nokkur spenna kæmist í leikinn. Haukar héldu þó uppteknum hætti er seinni hálfleikur hófst en gekk pínu brösuglega að skapa sér opin færi þar sem varnarmúr BÍ var mjög fjölmennur. Kristófer og Þorri komu inn á fyrir Birgi R. og Vigni á 55. mínútu. Þremur mínútum seinna setti Ómar K. boltann í netið eftir fallegt samspil Betim og Þorra upp hægri kantinn.
Á 60. mínútu var Þorri aftur á ferðinni er hann skoraði stórglæsilegt mark eftir fyrirgjöf Hilmar E. frá vinstri kantinum. Þorri stýrði fyrirgjöfinni viðstöðulaust innanfótar upp í markvinkilinn á einkar snyrtilegan hátt. Þorri var ekki hættur og bætti við öðru marki á 65. mínútu þegar hann var fljótur að hugsa eftir smá klafs í markteignum og með táarskoti kom boltanum í netið. Á sömu mínútu skiptu Arnar Steinn og Bjarki J. við Davíð J. og Ómar Karl.
Á 89. mínútu gerðist það sem fáir áttu von á, en þá áttu BÍ sitt fyrsta skot sem hitti markramma Haukanna. Kiddi markvörður varði þá vel fína aukaspyrnu ágæts markmanns BÍ sem spilaði seinustu mínúturnar í sókninni og virtist einnig vera með liðtækari útispilurum BÍ. Alls áttu Haukar 39 marktilraunir og þar af voru 18 skot sem hittu mark BÍ. Bí áttu 5 skot að marki og var eitt af þeim sem hitti markið.
Haukar gerðu vel að halda einbeitingunni allan leikinn og klára verkefnið þótt það væri ekki erfitt, en því er oft hætt við að lið sem hefur slíka yfirburði líkt og Haukar höfðu í þessum leik sýni værukærð og áhugaleysi sem kemur þeim síðan um koll. Slíkt var fjærri lagi raunin og geta allir leikmenn Hauka verið sáttir við sína frammistöðu. Vignir Sigfússon og Kristófer Gunnlaugsson léku báðir sína fyrstu opinberu leiki fyrir Hauka og óskum við þeim til hamingju með það.
Nú líður að Portúgalför beggja meistarflokka Hauka og því verður næsti leikur Hauka í Deildarbikarnum ekki fyrr en eitthvað er liðið á apríl en ekki er komin staðfest dagsetning fyrir leik Hauka og Selfoss, sem þarf að fresta vegna utanlandsferðarinnar. Hér má skoða stöðuna í riðli Hauka í Deildarbikarkeppninni:
http://ksi.is/asp/listar/mot.asp?MotNumer=8679