Ásgeir Þór Ingólfsson er einn af fjölmörgu uppöldnu leikmönnum meistaraflokks karla í knattspyrnu. Ásgeir hefur verið einn öflugasti sóknar- og miðjumaður Hauka undanfarin ár, hann gekk til liðs við Vals fyrir síðasta tímabil. Hann ákvað hinsvegar að taka slaginn að nýju með Haukum og gera allt í hans valdi til að koma liðinu í þá deild, sem það á heima.
Nú styttist í að 1.deildin hefjist en fyrsti leikur Hauka í 1.deildinni er gegn Þrótti R. á útivelli. Eftir 6 daga, fimmtudaginn 9.maí. Fjórum dögum seinna mætir síðan Haukar, Víking Reykjavík í Borgunar-bikar karla.
Fyrsti heimaleikur Hauka er gegn Grindavík sem féllu úr Pepsi-deildinni, en sá leikur er föstudaginn 17.maí.
Haukar.is heldur áfram að telja niður í fyrsta leik og í dag svarar Ásgeir Þór nokkrum spurningum, um veturinn sem senn fer að ljúka og um komandi tímabil.
Nú styttist í mót, hvernig er stemningin í hópnum?
– Stemningin í hópnum hefur verið mjög góð frá því að fyrsta æfingin var flautuð á. Menn eru meðvitaðir um stöðu liðsins og njóta hvers augnabliks saman þegar við hittumst á æfingum,leikjum og öðrum uppákomum.
Hvernig leggst tímabilið í þig?
– Tímabilið leggst mjög vel í mig. Við erum komnir með breiðari og sterkari hóp heldur en við höfum haft áður og allir á flottum aldri , þannig leikmenn ná enn betur saman núna heldur en t,d í fyrra.
Hvernig hefur þér líkað að vera kominn aftur í Haukana?
– Ég hreinlega gæti ekki verið sáttari með þessa ákvörðun. Auðvitað vill maður spila í deild þeirra bestu og ég hafði úr mörgu að velja þegar ég ákvað að segja skilið við Valsarana. En það er frábært að koma heim núllstilla sig, hitta gamla félaga og njóta þess að fá að spila fótbolta.
Hvernig hafa aðrir menn fittað inn í hópinn, sem eru ný komnir til Hauka?
– Allir nýju leikmennirnir virðast hafa verið hérna í nokkur ár svo vel fitta þeir hingað inn til okkar. Þeir hafa bara góð áhrif á liðið bæði utan sem og innanvallar.
Við hverju má Haukafólk búast frá ykkur í sumar?
– Haukafólk má búast við áhugaverðu sumri. Nu eru allir leikmenn ári reyndari og aðrir sem eru að koma úr efstu deildinni sem vita hvað þarf til , til að gera sem best úr sumrinu.
Þú hlýtur að hafa einhver góð skilaboð til allra stuðningsmanna Hauka að lokum?
Ég og allir leikmenn liðsins biðlum til stuðningsmenn að styðja við bakið á okkur í sumar. Mér finnst ég hafa sagt þetta ár eftir ár og lítil sem engin breyting orðið þar á. Það hefur margsannað sig að því fleiri sem mæta, þeim mun skemmtilegri verða leikirnir. Menn vilja alltaf sýna sitt rétta andlit og það er ekkert leiðinlegra en að gera það fyrir tómri stúku! MÆTIÐ Á VÖLLINN Í SUMAR OG GERUM ÞETTA Í SAMEININGU AÐ OKKAR SUMRI! Áfram HAUKAR!
Við tökum undir öll orð Ásgeirs í þessu. Fjölmennum á fyrsta leik Hauka, næstkomandi fimmtudag gegn Þrótti. Það er frídagur og því frábær ástæða að mæta á fyrsta leik Hauka í sumar.