21 dagur í mót – Alexander Freyr Sindrason

Haukar

Alexander Freyr Sindrason er einn af fjölmörgu uppöldnu leikmönnum meistaraflokks karla í knattspyrnu. Hann verður tvítugur á árinu og stimplaði sig inn í meistaraflokkinn á síðasta tímabili með vaskri framgöngu í miðri Haukavörninni og einnig í hægri bakverði.

Nú styttist í að 1.deildin hefjist en fyrsti leikur Hauka í 1.deildinni er fimmtudaginn, 9.maí gegn Þrótti R. á útivelli. Fjórum dögum síðar mætir Haukar, Víking Reykjavík í Borgunar-bikar karla.

Upphitunarkvöld fyrir mótið er annaðkvöld á Ásvöllum. Hefst fjörið uppúr 20:00, þar verður leikmannakynning, þjálfarnir tala um komandi tímabil, leikmenn halda Fótbolta PubQuiz og fleira skemmtilegt.

Á næstu dögum munum við spyrja nokkra af leikmönnum meistaraflokks spurninga, um veturinn sem senn fer að ljúka og um komandi tímabil. Vonandi að það stytti tímann fram að fyrsta leik.

Nú styttist í mót, hvernig er stemningin í hópnum?

– Stemningin er eins góð og hún mögulega getur verið. Það er mikil tilhlökkun í hópnum. Tímabilið leggst ótrúlega vel í mig. Ég hef sjaldan verið jafn spenntur fyrir sumrinu.

Nú voru þið í vikuferð á Spáni, hvernig gekk sú ferð?

– Hún gekk frábærlega. Enda ekki annað hægt þegar það eru svona miklir fagmenn saman komnir. Allir skemmtu sér vel og við æfðum vel þarna úti, þannig tilgangur ferðarinnar gekk fullkomlega upp.

Er mikil breyting á leikmannahópnum frá síðasta sumri?

– Já við höfum þurft að kveðja nokkra meistara en í staðinn komu ennþá meiri meistarar. Svo það er ekkert áhyggju efni, það er alltaf nóg af meisturum í Haukaliðinu.

Hvert er markmið liðsins í sumar?

– Það er ekki flókið. Markmiðið er bara að vinna leikina og hafa gaman í leiðinni. Það er sumar hérna í þrjá mánuði á ári og við nennum ekki að eyða þeim tíma í að tapa og hafa það leiðinlegt. 

Við hverju má Haukafólk búast frá liðinu í sumar?

– Við ætlum að spila með Hauka-hjartanu sem allir voru að leita af og biðja um síðasta sumar. 

Að lokum vildi Alexander hvetja alla Haukara að fjölmenna á Upphitunarkvöldið sem meistaraflokkur stendur fyrir annað kvöld, á Ásvöllum. Hefst kvöldið í uppúr 20:00 og þar verður nóg um að vera, leikmannakynning, Fótbolta-PubQuiz og fleiri skemmtilegar uppákomur. Það er að sjálfsögðu frítt inn á kvöldið.