Hilmar Trausti Arnarsson er einn af fjölmörgu uppöldnu leikmönnum meistaraflokks karla í knattspyrnu. Hilmar hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin ár, hann er 27 ára og einn leikreyndasti leikmaður liðsins. Hann hann hefur leikið lengst af á miðjunni en einnig hefur hann leyst stöðu bakvarðar.
Nú styttist í að 1.deildin hefjist en fyrsti leikur Hauka í 1.deildinni er gegn Þrótti R. á útivelli. Eftir 20 daga, fimmtudaginn 9.maí. Fjórum dögum seinna mætir síðan Haukar, Víking Reykjavík í Borgunar-bikar karla.
Upphitunarkvöld fyrir mótið er í kvöld á Ásvöllum. Hefst fjörið uppúr 20:00, þar verður leikmannakynning, þjálfarnir tala um komandi tímabil, leikmenn halda Fótbolta PubQuiz og fleira skemmtilegt.
Haukar.is heldur áfram að telja niður í fyrsta leik og í dag svarar Hilmar Trausti nokkrum spurningum, um veturinn sem senn fer að ljúka og um komandi tímabil.
Nú voru þið í vikuferð á Spáni, hvernig gekk sú ferð?
– Ferðin gekk mjög vel og þjappaði hópnum vel saman fyrir sumarið. Þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið upp á marga fiska æfði liðið mjög vel og nýttu leikmenn tímann utan æfinga til að hvíla lúin bein. Mikilvægi svona ferðar er oft vanmetið af öðrum en leikmönnum og þjálfurum en við leikmenn erum allir sammála um mikilvægi hennar enda værum við ekki tilbúnir til að safna fyrir hverri einustu krónu og rúmlega það til að komast í svona ferð. Hún er stór þáttur í lokaundirbúningi liðsins fyrir sjálft Íslandsmótið og ákveðin gulrót fyrir okkur eftir allt púlið í frostinu og snjónum á þessu langa undirbúningstímabili.
Hvernig hefur staðan á meiðslum í hópnum verið að undanförnu?
– Varðandi meiðslin þá er Helgi Valur sá eini sem hefur verið mikið meiddur í allan vetur en hann nær vonandi að hrista þau af sér á næstunni. Gummi Sævars æfði lítið á Spáni og hefur eitthvað verið að væla að undanförnu. Svo er Emils bara eins og hann er. Annars er ég bjartsýnn á að þjálfararnir nái að velja úr öllum hópnum í byrjunarliðið í fyrsta leik í Íslandsmótinu.
Hvernig leggst tímabilið í þig?
– Tímabilið leggst mjög vel í mig og er ég mjög bjartsýnn fyrir sumarið. Hópurinn er virkilega þéttur og samkeppnin er mikil um allar stöður á vellinum. Hópurinn hefur æft vel í vetur og mórallinn hefur sjaldan eða aldrei verið betri. Það er í raun allt til staðar til þess að gera þetta tímabil eftirminnilegt en það kemur að sjálfsögðu ekkert að sjálfu sér. Maður uppsker jú eins og maður sáir. Liðið er staðráðið í að gera þetta að góðu tímabili og viljum við að sjálfsögðu fá allt Haukafólk með okkur í það verkefni. Liðið hefur endurheimt nokkra af þeim uppöldu leikmönnum sem hurfu á braut eftir Pepsí-deildarævintýrið og er hópurinn nú samsettur af mörgum heimamönnum í bland við aðra öfluga leikmenn. Það er okkar ósk að fá sem flesta á völlinn í sumar og að umgjörðin og stemningin í kringum liðið sé sem best.
Er ekki komin tilhlökkun að fara æfa á grasi?
– Jú það er engin spurning. Eftir að hafa fengið að æfa við bestu aðstæður á Spáni um daginn þá er mikil tilhlökknum að geta farið að æfa á rennisléttu grasinu á Ásvöllum á næstu dögum. Eftir að farið var að hugsa um grasið á Ásvöllum að einhverju viti þá fullyrði ég að það eru fá æfingasvæði í betra standi en grassvæðið á Ásvöllum yfir sumartímann.
Hvernig lýst þér á 1.deildina í sumar? Veistu mikið um styrkleika liðanna?
– Mér lýst vel á deildina. Mér sýnist deildin vera að styrkjast með hverju árinu sem líður og verða þetta því allt hörku leikir. Varðandi styrkleika hinna liðanna þá verð ég að viðurkenna að ég hef ekki séð mikið til þeirra á undirbúningstímabilinu öfugt við undanfarin ár. En ég þykist samt vita að þau lið sem féllu úr Pepsí deildinni síðastliðið sumar og þau lið sem voru í efri hluta 1.deildarinnar ætli sér ekkert annað en að fara upp um deild. Þetta verður því mikil barátta og hver leikur gríðarlega mikilvægur. Það er mín tilfinning að það eigi ekkert eitt lið eftir að sitja eftir eða stinga af og það eigi ekki eftir að ráðast fyrr en í seinustu umferð hvaða lið falla og hvaða lið fara upp um deild.
Er ekki eina stefna liðsins, að spila í Pepsi-deildinni 2014?
– Stefna Hauka verður að sjálfsögðu sett á að fara upp um deild eins og hún hefur reyndar verið síðastliðin tvö ár eða síðan við féllum úr Pepsí deildinni árið 2010. En til þess að það takist þarf allt að ganga upp því samkeppnin er mikil og mörg sterk lið sem gera tilkall til þess að fara upp um deild. En ef allir leggjast á eitt, leikmenn, þjálfara, stjórn, stuðningsmenn og aðrir þeir sem koma að liðinu þá hef ég mikla trú á því að þetta geti orðið gott sumar og í raun ekkert því til fyrirstöðu að liðið blandi sér að fullum krafti í baráttuna um sæti í efstu deild, þar sem liðið á heima.
Við þökkum Hilmari Trausta kærlega fyrir þessi svör. Í næstu viku höldum við áfram að telja niður í fyrsta leik og þá fáum við fleiri leikmenn til að stytta okkur stundir. Eins og Alexander í gær, þá vill Hilmar Trausti hvetja alla Haukara að fjölmenna á Upphitunarkvöldið sem meistaraflokkur stendur fyrir í kvöld, á Ásvöllum. Hefst kvöldið uppúr 20:00 og þar verður nóg um að vera, leikmannakynning, Fótbolta-PubQuiz og fleiri skemmtilegar uppákomur. Það er að sjálfsögðu frítt inn á kvöldið.